Aukatónleikar Jólin Heima komnir í sölu
Uppselt er orðið á kvöldtónleika Jólin Heima sem fram fara þann 6. desember í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Tónleikahaldarar hafa því dottið niður á þá snilldarhugmynd að bæta við aukatónleikum og hefjast þeir kl. 17:00 og að sjálfsögðu verður sama sjóið í boði á aukasýningunni – full keyrsla og allir í jólastuði!
Jólin Heima er orðinn fastur liður í aðventustemningunni í Skagafirði. Ef Feyki bregst ekki minnið þá er þetta sjötta árið í röð sem boðið er upp á þessa einstöku jólalagaveislu.
Það er einvalalið skagfirskra tónlistarmanna sem kemur fram, syngur og leikur. Það er því heldur betur kominn reynsla á þennan hóp, unga fólkið orðið enn kraftmeira og reynslunni ríkara, og er óhætt að fullyrða að það verður enginn svikinn af því að mæta á Jólin Heima í ár frekar en árin þar á undan.
Söngurinn mun berast frá raddböndum Gunnars Hrafns, Sigvalda Helga, Inga Sigþórs, Malenar, Valdísar, Bergrúnar Sólu, Róberts Smára, Emelíönu Lillýjar og Heiðdísar.
Hægt er að kaupa miða núna með því að smella á hlekk á Jólin heima inni á Feykir.is eða með því að smella hér >