AVS flytur á Sauðárkrók tveir starfa hjá sjóðnum

MBL segir frá því að í nýjum reglum um AVS, rannsóknarsjóð í sjávarútvegi, er kveðið á um að aðsetur sjóðsins sé á Sauðárkróki, en til þessa hefur sjóðurinn verið vistaður hjá Matís í Reykjavík. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, staðfesti nýju reglurnar fyrir jól.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er flutningurinn gerður til að treysta enn betur framtíðarstöðu og hlutverk sjóðsins og bein tengsl hans við sjávarútveginn. Tveir starfsmenn starfa við sjóðinn og sjö manna stjórn.

Veittir eru úr sjóðnum styrkir til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis. Styrkir AVS rannsóknarsjóðs eru fyrst og fremst til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.

Fleiri fréttir