Körfunni flýtt vegna handboltans

Það er ekki víst að allir geti horft á handboltann í kvöld sökum spennu. Við skulum þó vona að Viktor Gísli verði með augu á boltanum og verji eins og berserkur. MYND AF MBL
Það er ekki víst að allir geti horft á handboltann í kvöld sökum spennu. Við skulum þó vona að Viktor Gísli verði með augu á boltanum og verji eins og berserkur. MYND AF MBL

Það er eitthvað sem kallast handbolti að flækjast fyrir landanum þessa dagana og hefur lamandi áhrif á vinnuframlag, þjóðarhag og jafnvel sálarlíf flestra þegna landsins. Í kvöld leikur íslenska handboltalandsliðið í karlaflokki til undanúrslita á Evrópumótinu í téðri íþrótt og hefst leikurinn kl. 19:30. Á sama tíma áttu Tindastólsmenn að mæta Stjörnumönnum í körfu í Garðabæ en vegna handboltans hefur leiknum verið flýtt og verður boltanum kastað upp kl. 18:00 í Garðabænum.

Mikil eftirvænting er vegna beggja leikjanna en þó eru sennilega fleiri landsmenn með böggum hildar vegna handboltans. Andstæðingarnir eru frændur vorir Danir og má vænta þess að hart verði barist í Herning, full höll af bláum og rauðum og raddbönd og svitakirtlar verði á yfirsnúningi.

Danir hafa haft á að skipa sterkasta handboltaliði heimsins síðan að Gummi Gumm stýrði þeim og kenndi þeim allt sem þeir kunna og vann fyrir þá Ólympíugull fyrir tíu árum síðan. Hann fékk ekkert miklar þakkir fyrir og mætti halda að Dönum þyki það hið vandræðalegasta mál að Íslendingur hafi leitt þá til gullsins.

Í undanúrslitum í þessari mestu íþrótt heimsins, ef glíman er fráskilin, eru fjögur lið og það er til marks um yfirburða þekkinga Íslendinga í þessu sporti að þremur af þessum fjórum undanúrslitaliðum er stýrt af íslenskum ofurþjálfurum og má því í raun segja að Ísland hafi þegar sigrað á þessu móti. Ehemm.

En hvað um það, það stefnir í spennuþrunginn föstudag. Ef svo illa vill til að leikurinn í Garðabæum dragist á langinn og verði jafnvel framlengdur þá er engu að síður ólíklegt að handboltinn komi til móts við íslenska körfuboltann og bíði með að flauta leik á í Herning. Það gæti því orðið tveggja skjáa áhorfsmaraþon hjá einhverjum í kvöld.

Áfram Ísland ... og Tindastóll!

Fleiri fréttir