Lífið er yndislegt | Leiðari 4. tölublaðs Feykis 2026
Eins og svo oft áður í janúarmánuði þá eru Íslendingar enn eina ferðina að fara með himinskautum á einu allsherjar handboltatrippi. Það er auðvitað óvíst hversu lengi þessi víma endist en eftir svakalegan glansleik gegn Svíum síðastliðinn sunnudag má reikna með að væntingar um verðlauna-peninga hjá Íslendingum almennt séu miklar – svo ekki sé nú dýpra í árina tekið.
Það má eiginlega reikna með því að landinn hafi lagst spenntur og stoltur á koddann á sunnudagskvöldið og hugsað: „Út vil ek!“ Það þýðir ekki að hann vilji út að aka heldur að hann vilji utan, í víking, hvert sem leið íslenska landsliðsins liggur. Ef kallinum í Hvíta húsinu ditti í hug að hertaka Ísland þá eru næstu dagar rétti tíminn – það verða fáir til varna hér á Fróni og ekki víst að við sem yrðum eftir hér heima tækjum eftir Trump og félögum. Það eru allir með hugann við handboltann.
Það er að sjálfsögðu með ólíkindum að íslensku stuðn-ingsmennirnir í Malmö-höllinni yfirgnæfðu heimamenn, sem fjölmenntu á leikinn, frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Og Íslendingar kunna sannarlega að styðja sitt lið.
Í Skagafirði líta menn nú alla jafna örlítið niður á þetta sport og taka jafnvel undir orð Svala Björgvins – sem menn gera nú ekki á hverjum degi – og segja körfuboltann vera drottningu allra íþrótta. En í janúar, þegar þessi EM og HM mót fara fram, breytist allt og jafnvel friðelskandi net-innkaupakonur grafa upp stríðsöxina, leggja kreditkortið til hliðar og hugsa um fátt annað en næsta leik Íslands á handboltavellinum.
Íþróttafréttamaðurinn og fyrrum landsliðshetjan, Einar Örn, er býsna lunkinn að lýsa leikjum Íslands. Margt skrítið getur gerst í handboltaleikjum. Í leiknum gegn Svíum mátti heyra hann áhyggjufullan segja í síðari hálfleik: „Þarna kemur höndin.“ Fyrr í leiknum sagði hann frá því að línumaður Íslands hefði skipt um hendi áður en hann skoraði. Á lokamínútunum fékk svo Ómar Ingi „ofsalegt skynsemiskast“ og ákvað að gera ekkert. Sem var greinilega það rétta í stöðunni.
Sérfræðingar í setti eru gamlar landsliðskempur; Logi Geirs, Óli Stef og Kári Kristján, sem kláruðu nú eiginlega hrósið og lýsingarorðin í leiknum gegn Svíum og erfitt að sjá hvernig þeir geta toppað sig ef íslenska liðið nær að komast í undanúrslit keppninnar.
Það hefur valdið nokkurri hneikslun samstarfskvenna minna flestra að ég hef ekki setið límdur við skjáinn yfir handboltanum. Kannski er þetta bara of spennandi fyrir mig, ég veit það ekki. En ég horfði á megnið af Svíaleiknum að honum loknum. Frábær leikur og full ástæða til að rifna úr stolti. Eitt gladdi mig þó sérstaklega en það var að loks var búið að gefa Ég er kominn heim frí og í leikslok fékk Eyja-lagið góða, Lífið er yndislegt, að hljóma. Það þykja mér góð skipti þó sannarlega hafi gamla ungverska arían skapað mörg eftirminnileg gæsahúðarmóment síðustu árin.
Áfram Ísland!
Óli Arnar Brynjarsson, ritstjóri
