Bændamarkaður á morgun
Næsti Bændamarkaður á Hofsósi verður haldinn á morgun, laugardaginn 28. júlí, klukkan 13-16. Verður þetta í þriðja sinn sem markaðurinn er haldinn í sumar og er óhætt að segja að hann hafi fengið góðar viðtökur og hafa fjölmargir lagt leið sína í „Plássið" á Hofsósi þessa daga. Markaðurinn er haldinn í gamla pakkhúsinu sem er talið byggt árið 1777 og er eitt af elstu timburhúsum landsins, flutt hingað til lands á vegum dansks verslunarfélags. Húsið og umhverfi þess í gamla þorpskjarnanum á Hofsósi skapar virkilega skemmtilega umgjörð um þá skemmtilegu nýjung sem Bændamarkaðurinn er.
Á markaðnum bjóða bændur og aðrir frumframleiðendur og handverksfólk í Skagafirði vöru sína. Meðal þess sem boðið hefur verið til sölu eru rósir og rabarbari, kjöt og kryddjurtir, hunang og blóm, fiskur, egg, grænmeti og margt fleira.
Hægt er að kynna sér markaðinn nánar á Facebooksíðunni Bændamarkaður Hofsósi.
Tengd frétt á Feyki.is: Fyrsti bændamarkaður sumarsins á Hofsósi á laugardaginn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.