Basl í Breiðholti

Pétur í baráttunni við Evan Singletary í Hertz-hellinum í gær.  MYND: KARFAN.IS / Þorsteinn Eyþórsson
Pétur í baráttunni við Evan Singletary í Hertz-hellinum í gær. MYND: KARFAN.IS / Þorsteinn Eyþórsson

Tindastólsmenn brutust í gær suður yfir snjóhuldar heiðar og alla leið í Breiðholtið þar sem baráttuglaðir Hellisbúar biðu eftir þeim. Það hafa oftar en ekki verið hörkuleikir á milli Stólanna og ÍR og sú varð raunin í gær en því miður voru það heimamenn sem reyndust sterkari að þessu sinni. Þeir höfðu frumkvæðið lengstum í leiknum og lið Tindastóls náði ekki nægilegu áhrifaríku áhlaupi á lokakafla leiksins til að snúa leiknum sér í vil. Lokatölur því 92-84 fyrir ÍR.

Lið ÍR komst í 7-0 í upphafi leiks á meðan Stólarnir virkuðu þokkalega kaldir en þeir þiðnuðu fljótlega og höfðu snúið leiknum sér í vil um miðjan fyrsta leikhluta, staðan 12-15 eftir tvo þrista frá Simmons og Bilic. Það voru hins vegar heimamenn sem kláruðu næstu mínútur betur og leiddu, 26-19, að leikhlutanum loknum. Lið ÍR náði átta stiga forystu snemma í öðrum leikhluta, 29-21, en þá skelltu Stólarnir í lás í vörninni og náðu 17-4 kafla og komu sér rækilega inn í leikinn. Þeir leiddu 33-38 þegar annar leikhluti var hálfnaður en lið ÍR hrökk aftur í gang og þeir komu sterkir til baka, Sæþær Kristjánsson kom þeim yfir 46-43 en Axel Kára gerði síðustu körfu fyrri hálfleiks og allt í járnum. Staðan 46-45 fyrir ÍR í hléi.

Breiðhyltingar hertu á vörninni í upphafi síðari hálfleiks og liði Tindastóls gekk illa að finna leiðina að körfu lærisveina Borces. Vörn Tindastóls var raunar sterk líka en það voru þó ÍR-ingar sem smám saman bættu í forskotið. Körfur frá Evan Singletary og Colin Pryor breyttu stöðunni í 62-53 um miðjan leikhlutann og Danero Thomas kom heimamönnum ellefu stigum yfir með þristi. Bilic og Simmons svöruðu fyrir Stólana áður en leikhlutinn var úti og staðan 66-61 fyrir lokakaflann. Framan af fjórða leikhluta var munurinn yfirleitt þetta fimm til níu stig og augljóst að ÍR ætlaði ekki að gefa þumlung eftir í Hertz-hellinum. Upp úr miðjum fjórðungnum setti Simmons niður tvö víti fyrir Tindastól og minnkaði muninn í 77-71, Georgi Boyanov klikkaði á skoti og Jaka Brodnik skilaði þristi hinum megin og skyndilega var munurinn orðinn þrjú stig. Staðan 77-74 og fjórar mínútur til leiksloka. Því miður náðu Stólarnir ekki að fylgja þessu eftir og fimm stig frá Boyanov komu Breiðhyltinum aftur á beinu brautina og þeir hirtu stigin tvö sem í boði voru. 

Pétur Birgis var öflugastur í liði Tindastóls, gerði flest stig liðsins eða 20 og hirti flest fráköst, níu. Sinisa Bilic gerði 18 stig og hirti átta fráköst og þar af sex sóknarfráköst. Brodnik og Simmons skiluðu báðir 16 stigum. Samkvæmt tölfræðinni áttu Stólarnir sína bestu kafla þegar Friðrik Þór (+13) og Helgi Rafn (+11) voru á parketinu. Lið Tindastóls vann frákastaslaginn 46/38 og hirti 21 sóknarfrákast en Stólarnir töpuðu fleiri boltum (17/11). Það var sömuleiðis athygliverð tölfræði að einungis byrjunarlið ÍR skoraði í leiknum en Breiðhyltingar fengu semsagt ekkert stig af bekknum. Þetta dugði þeim þó vel því allir byrjunarliðsmennirnir skiluðu miklu framlagi en Boyanov var þeirra atkvæðamestur með 27 stig og 12 fráköst.

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, sagði í samtali við Vísi.is að það væri leiðinlegt að tapa en lið ÍR hefði verið mjög gott en lið Stólanna gæti gert betur í ýmsum hlutum. „Við æfðum ekki í gær [miðvikudag] og daginn áður æfðum við í myrkri, það var náttúrulega rafmagnslaust, þannig að það hefur einhver áhrif en í sjálfu sér þýðir ekkert að ræða það, það er bara partur af þessu. Ég nota aldrei afsakanir, við þurfum bara að gera betur til að vinna,“ sagði Baldur Þór.

Það er einn leikur eftir fyrir jól en fimmtudaginn 19. desember kemur lið Grindavíkur í heimsókn í Síkið með þá Sigtrygg Arnar og Björgvin Hafþór í farteskinu. Grindvíkingar hafa verið að ná vopnum sínum eftir brösuga byrjun í Dominos-deildinni og má því búast við hörkuleik. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir