Bergþór og Gunnar Bragi taka sér frí frá þingstörfum

Miðflokksmennirnir Bergþór Ólason, þingmaður Norðvesturkjördæmis, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Suðvesturkjördæmis, hafa ákveðið að taka sér leyfi frá þingstörfum eftir að ósæmileg hegðun þeirra á Klausturbarnum varð gerð opinber í fjölmiðlum, eins og frægt er orðið. Sendu þeir tilkynningar þess efnis í gærkvöldi.

Tilkynning Bergþórs hljóðar svo:

„Eins og margir landsmenn vita þá er ég einn þeirra þingmanna sem sátu á hótelbarnum Klaustri þriðjudaginn 20. nóvember sl. og viðhafði meiðandi ummæli um einstaklinga sem höfðu ekkert sér til sakar unnið. Slíkt á maður auðvitað ekki að gera og hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá þingstörfum.
Þegar maður finnur sig í þeirri stöðu að þekkja ekki þann mann sem hljómar á upptökum, talsmátinn er manni framandi og framgangan þannig að maður skammast sín, verður maður að líta í spegil og taka sjálfan sig til gagnrýnnar skoðunar.  Það ætla ég að gera.
Ég vil ítreka afsökunarbeiðni mína til allra þeirra sem ég særði með ummælum mínum.
Virðingarfyllst,

Bergþór Ólason.“

 

Tilkynning Gunnars Braga er eftirfarandi:

„Fyrir tíu dögum sýndi ég mikið dómgreindarleysi og hafði uppi orð sem eru engum sæmandi. Það var mér mikið áfall að sjá hvaða orðfæri ég viðhafði og mun taka mig tíma að vinna úr því með vinum og fjölskyldu. Ég harma að hafa sært samstarfsfélaga mína og fleiri og tek ábyrgð á hegðun minni. Vil ég þó segja að mistök gerum við manneskjurnar víst og er öllu jafna auðveldara að dæma en að fyrirgefa. „Sá yðar er syndlaus er kasti fyrsta steininum“ Ég mun hafa það í huga hér eftir og hvet ykkur til þess sama.
Ég vona að hlutaðeigandi fyrirgefi mér þessa hegðun en vegna hennar hef ég ákveðið að taka mér leyfi frá þingstörfum.

Gunnar Bragi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir