Bess klárlega einn af þeim bestu sem Pétur hefur spilað með

Pétur með silfurpening eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir liði Keflvíkinga í úrslitum VÍS bikarsins. MYND: DAVÍÐ MÁR
Pétur með silfurpening eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir liði Keflvíkinga í úrslitum VÍS bikarsins. MYND: DAVÍÐ MÁR

Það hefur verið pínu þannig síðustu vikurnar að stuðningsmenn Stólanna hafa verið með hálfgerða körfubolta-timburmenn. Menn kannski búnir að vera með smá ofnæmi og ekki verið í þörfinni að ræða frammistöðu vetursins hjá meisturunum okkar. Fréttir af því að Javon Bess, fyrrum leikmaður Tindastóls, hafi verið valinn varnarmaður ársins í Þýskalandi gæti hafa kveikt körfuneistann á ný hjá einhverjum og því sendi Feykir nokkrar spurningar á Pétur Rúnar Birgisson, fyrirliða Tindastóls, og spurði út í Bess og ... já, tímabilið síðasta.

Javon Bess var samkvæmt frétt Körfunnar valinn varnarmaður ársins í Þýskalandi. Kemur þetta á óvart? „Nei, svo sem ekki, hann kom til okkar úr G league liði þar sem hann hefði þar áður verið að æfa með New Orleans Pelicans og þá sem svona svokallaður “3 and D” leikmaður. Þannig ef að honum er treyst að dekka NBA leikmenn þá held eg að það komi fáum á óvart að honum gangi vel þar í Evrópu. Hann var nátturulega frábær varnarmaður og óx svo eftir því sem leið á veturinn sóknarlega, var farinn að geta dripplað boltanum mun meira undir lok tímabils sem hentaði okkur mikið. Svo var hann bara mjög sterkur andlega, lét ekkert á sig fá og yfirleitt fyrstur á vettfang að bakka sína menn upp.“

Er hann besti Kaninn sem þú hefur spilað með og með hvaða erlendu leikmönnum hefur þér fundist best að spila eða verið bestu erlendu leikmenn Tindastóls frá því þú byrjaðir að stjórna leiknum? „Hann er klárlega einn af þeim og kannski, ef ég hugsa mig um svona í fljótu bragði, sá sem mun ná lengst á sínum ferli. En svo er erfitt kannski að velja eitthvern sem þann besta. Ég hef verið mjög heppinn að spila með mörgum frábærum leikmönnum í gegnum tíðina og eiga margir skilið að maður minnist á þá. Keyshawn nátturulega hendir í svakalega frammistöðu undir lok síðasta tímabils [2022-2023] og spilaði risa rullu í því að fyrsti Íslandsmeistaratitillinn mætti í fjörðinn fagra. Adomas og Taiwo eiga báðir líka skilið að fá sitt nafn hérna inn en ég gæti líklega skrifað heila bók um alla þessa gaura sem ég hef spilað með og þá af hverju hver og einn ætti það skilið að vera talinn með þeim bestu sem ég hef spilað með. Þannig við leyfum þessum að komast á blað núna og tökum þetta svo kannski betur seinna.“

Hvaða lið heldurðu að rífi Íslandsmeistaratitilinn af Stólunum? „Nuna er eg að svara þessu og þá eru 6 mín eftir af 2. leikhluta í Val-Njarðvík. Ég ætla að segja að Njarðvík vinni þetta, af þvi að mér finnst þeir bara svolítið vera að vinna á, Þorri og Veigar búnir að stíga upp og svo hafa allir þessir fjórir útlendingar hjá Njarðvik bara verið flottir og allir leikmenn þarna virðast kunna sín hlutverk vel.“

Nú hefur rykið aðeins sest eftir erfitt tímabil. Hvernig myndir þú lýsa vetrinum hjá Stólunum og hvað með þína eigin frammistöðu í vetur? „Endaniðurstaðan var nátturulega ekki nógu góð, við höfum verið góðu vanir síðustu ár eftir að hafa farið í úrslit tvö ár i röð. En tímabilið litaðist af meiðslum til að byrja með og svo þegar allir voru orðnir heilir í smá tíma að þá missum við Pavel í sín veikindi. Segjandi allt þetta er þetta samt engin afsökun og við bara náðum einhvernveginn aldrei að smella sem lið, því miður. Frammistaða mín var svo sem ekkert sérstök. Byrja svo sem vel og var flottur í þessari Evrópukeppni og fyrsta leik á móti Álftanesi, lendi svp í því að meiðast og kem svo inn í þetta aftur og því miður þá var sá taktur sem var í liðinu þá ekki til staðar og ég varð svona kannski hálftýndur oft á tíðum. Ég hefði klárlega getað staðið mig betur og tekið meiri ábyrgð á erfiðum augnablikum en þetta var bara lærdómsríkur vetur og maður hlakkar bara til þess næsta.

Hvernig er hljóðið í mönnum eftir veturinn, klæjar menn í fingurna að byrja aftur að æfa og ákveðnir í að koma sterkir til baka? „Hljóðið er svo sem bara gott, menn auðvitað bara pirraðir yfir að hafa dottið snemma út af því að mönnum fannst við vera með mikið betra lið en við náðum að sýna. En svo held ég nú að flestir séu byrjaðir að æfa á fullu aftur þótt það sé kannski ekki með körfubolta og verður bara spennandi að sjá svo hver mætir sem þjálfari í haust. Að sjálfsögðu tel ég að menn muni mæta vel gíraðir inn í næsta vetur og ákveðnir í því að gera mun betur en þennan vetur,“ segir Pétur og bætir við: „ Svo vil ég bara enda á að þakka kærlega fyrir stuðninginn í vetur og hlakka til að sjá ykkur í haust. Áfram Tindastóll!“

Þess má geta í lokin að lengi vel leit út fyrir að Pétur hefði rétt fyrir sér varðandi það að Njarðvíkingar færu í úrslit. Þeir grænu voru ellefu stigum yfir í oddaleiknum gegn Val á Hlíðarenda í kvöld þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Þá gerðu Valsmenn, með Taiwo Badmus í fararbroddi, sér lítið fyrir og náðu 13-0 kafla og tryggðu síðan sæti sitt í úrslitaeinvíginu þar sem þeir mæta gulum og glöðum Grindvíkingum. Það verður eitthvað, eins og skáldið sagði...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir