Bestu búsetuskilyrðin í Skagafirði - Kynning á niðurstöðum íbúakönnunar

Frá kynningu á Blönduósi. Mynd:Ssnv.is
Frá kynningu á Blönduósi. Mynd:Ssnv.is

Nýlega heimsótti Vífill Karlsson, hagfræðingur, sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra og kynnti fyrir þeim niðurstöður íbúakönnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi stóðu að með Vífil í fararbroddi. Þrjár kynningar voru haldnar, ein á Hvammstanga þar sem fjallað var um niðurstöður könnunarinnar í Vestur-Húnavatnssýslu, á Blönduósi fyrir Austur-Húnavatnssýslu og sú þriðja á Sauðárkróki þar sem niðurstöður fyrir Skagafjörð voru kynntar. Sagt er frá þessu á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa, allt frá árinu 2004, gert íbúakönnun á þriggja ára fresti í þeim tilgangi að kanna viðhorf íbúa landshlutans til ýmissa mikilvægra mála og til að fylgjast með hvort sú afstaða taki breytingum frá einu ári til annars. Etir allnokkuð þróunarferli var sú ákvörðun tekin að bjóða öðrum landshlutum að vera með og í síðustu könnun bættust íbúar Suðurlands, Reykjaness, Vestfjarða og Norðurlands vestra í hópinn.

Könnun þessi var unnin árið 2016 og í apríl á þessu ári kom út ítarleg skýrsla með niðurstöðum hennar. Tekur hún til 19 landssvæða á landsbyggðinni, frá Hornafirði í austri og Skagafirði í norðri. Í henni er hugur fólks til margra mikilvægra þátta kannaður, s.s. vinnumarkaðar, búsetuskilyrða og hamingju.

Af svæðunum 19 fær Skagafjarðarsýsla hagstæðustu niðurstöðuna, með einkunnina 9,4, þegar horft var búsetuskilyrðanna 40 sem spurt var um og vegin var umsögn um þau bæði hvað stöðuna varðar og mikilvægi þeirra fyrir áframhaldandi búsetu íbúanna. Vestur-Húnavatnssýsla lendir í áttunda sæti með einkunnina 9,8 og Austur-Húnavatnssýsla er í 16. sæti með einkunnina 6,4.  

Til stendur að vinna samskonar könnun á árinu 2019 og mun SSNV einnig taka þátt í henni. Líkt og 2016 er sú þátttaka hluti af áhersluverkefni sóknaráætlunar.

Meðfylgjandi eru glærur þær sem kynntar voru á hverjum stað og sýna þá þætti sem skáru sig úr á hverju svæði fyrir sig.Glærur fyrir Vestur-Húnavatnssýslu má sjá hér, Fyrir Austur-Húnavatnssýsllu hér og fyrir Skagafjörð hér. Hér er að finna myndband þar sem Vífill fer yfir hvernig lesa á úr niðurstöðum könnunarinnar.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir