Betri afkoma Húnaþings vestra

Síðari umræða um ársreikning sveitarsjóðs Húnaþings vestra og fyrirtækja árið 2010 var til umræðu á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku og var hann samþykktur með 7 atkvæðum. Niðurstaða aðalsjóðs var neikvæð um kr. 17,7 millj. en hafði verið áætluð -62,9 millj. kr. Niðurstaða samstæðu A og B hluta er neikvæð um kr. 41,2 millj. en hafði verið áætluð -96,6 millj. kr.

Á fundinum var lögð eftirfarandi bókun:

„Sveitarstjórn Húnaþings vestra lýsir yfir ánægju með niðurstöðu ársreiknings ársins 2010. Afkoma sveitarfélagsins, bæði aðalsjóðs og samstæðu, er mun betri en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir. Niðurstaða aðalsjóðs var neikvæð um kr. 17,7 millj. en hafði verið áætluð -62,9 millj. kr. Niðurstaða samstæðu A og B hluta er neikvæð um kr. 41,2 millj. en hafði verið áætluð -96,6 millj. kr. Í ársreikningnum eru eftirstöðvar stofnfjár í fyrrum Sparisjóði Húnaþings og Stranda og Sparisjóði Vestfjarða afskrifaðar alls kr. 18 millj. Ljóst má vera að afkoma aðalsjóðs hefði verið jákvæð hefði umrædd afskrift ekki komið til. Rekstrartekjur voru rúmum 47 millj. kr. hærri en ráð var fyrir gert en rekstargjöld tæpum 16 millj. kr. hærri. Varðandi tekjuaukninguna munar mestu um hækkun á framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Varhugavert er hins vegar að gera ráð fyrir óbreyttum framlögum sjóðsins vegna mikillar óvissu um tekjur hans og breytingar á úthlutun framlaga. Aðgerða er lúta að hagræðingu og sparnaði ber að leita eins og frekast er kostur og mikilvægt er að áfram verði gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins þrátt fyrir að fjárhagsstaða þess sé traust. Niðurstaðan sýnir jafnframt að staðan gagnvart viðmiði Eftirlitsnefndar sveitarfélaga um skuldsetningu sveitarfélaga er betri en árið 2009, en þá kom Húnaþing vestra best út af sveitarfélögum yfir 1000 íbúa.“

Fleiri fréttir