Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í torfvegg

Svona lýtur veggurinn út eftir atganginn sl. föstudag. Mynd: SMH
Svona lýtur veggurinn út eftir atganginn sl. föstudag. Mynd: SMH

Það fór betur en á horfðist föstudaginn 16. júlí sl. þegar eldur kom upp í torfvegg umhverfis safnasvæðið í Glaumbæ. Að öllum líkindum hafði verið slökkt í sígarettu í veggnum og urðu starfsmenn safnsins varir við eldsupptökin og náðu að komast fyrir frekari skemmdir með því að stinga úr veggnum þann part sem glóð var í.

„Klukkan var fimm mínútur yfir sex, ég og samstarfsfélagi minn vorum að ganga frá uppgjöri í miðasölunni þegar upp að okkur kemur útlendingur sem að segir að það sé kominn upp eldur og bendir á reyk sem er að koma úr veggnum“, sagði Friðrik Snær Björnsson, safnvörður í Glaumbæ, í samtali við Feyki.

Friðrik fór þá og lét Berglindi Þorsteinsdóttur, safnstjóra, vita af eldinum.
„Ég sagði henni frá þessu á þann máta að það skildi ekki líða yfir hana, labba inn til hennar og segi; „Hæ Berglind, það er smá eldur“, sem var kannski ekki það besta til að segja, en við fórum þá, sóttum hnífa og athuguðum hvort við næðum að skera brotið sem logaði úr veggnum.“

Það virtist ekki ganga hjá þeim þannig að náð var í skóflu og stykkið sem logaði var stungið út úr veggnum.
„Við reyndum að gera sem minnst en enduðum á því að vera frekar örugg á því að fjarlægja þann part úr veggnum sem logaði og skófluðum því góðan part úr veggnum. Við vorum svona hálftíma, 45 mínútur að stinga úr veggnum til að tryggja að það væri enginn hiti eftir í veggnum.“

Það eru ábyggilega einhverjir sem furða sig á því af hverju ekki var reynt að slökkva eldinn með slökkvitæki án þess að stinga part úr honum, en það virðist ekki vera möguleiki þegar um torfvegg er að ræða. Blaðamaður Feykis mælti sér mót við Helga Sigurðsson, torfhleðslumeistara, og forvitnaðist um það af hverju ekki sé hægt að slökkva eld í torfi.

„Þegar það kviknar í svona torfi, þá er þetta meira svona glóð frekar en eldur, þú sérð ekki beint eldinn. Það er kannski hægt að líkja þessu við sígarettu, torfið er svona laust í sér. Glóðin fer bara inn og svo sérðu bara kannski smá reyk, það er aldrei mikill reykur.“

Helgi segir að vatn komist í rauninni aldrei að glóðinni inn í veggnum, þess vegna er eiginlega ekkert hægt að slökkva þetta með vatni, það þarf bara hreinlega að moka þessu öllu í burtu og gera það varlega svo það fjúki ekki glóð út um allt.
„Þetta er svona aðal ástæðan fyrir því að það sé ekki hægt að slökkva þetta með vatni, það fer bara hreinlega ekki inn í vegginn. Það getur verið glóð inn í veggnum þótt það sé smá skel utan á honum sem er ekki brunninn. Þá getur glóðin bara farið inn og búið til hálfgerð göng.“

„Svona veggir brenna eiginlega aldrei með neinum hraða, það getur auðvitað farið þannig að ef það kemur mikill vindur, þá auðvitað fær þetta miklu meira súrefni og brennur hraðar og maður fer kannski að sjá eld en hættan við svona er auðvitað fyrst og fremst sú að þetta fjúki af stað og fari í önnur hús.“


Helgi Sigurðsson byggði þennan vegg á sínum tíma og blaðamaður Feykis spurði hann hvort það væri ekki líklegt að hann muni koma til með að gera við þennan vegg.
„Sjálfsagt verður það nú frekar líklegt svona, þó þau geti nú gert þetta sjálf,“ sagði Helgi sposkur að lokum.

/SMH

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir