Bilun í heitavatnslögn á Laugarbakka

Vegna bilunar snemma í morgun á lögn frá borholu á Laugarbakka verður vatnslaust á Hvammstanga, í Víðidal og í Miðfirði fram eftir degi. Unnið er að viðgerð en fólk á þessu svæði er hvatt til að fylgist vel með heimasíðu Húnaþings vestra varðandi framgang viðgerðarinnar.
Á síðunni er ábending til húsráðenda þar sem þeir eru beðnir um að hafa í huga að loft getur komist á kerfið þegar vatni er hleypt á að nýju með viðeigandi óhljóðum og við viðgerðir kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningameistara.
Uppfært kl. 11:47: Starfsmenn Hitaveitu Húnaþings vestra hafa staðið sig afar vel í viðgerð á lögn frá borholu á Laugarbakka og er henni lokið. Á heimasíðu Húnaþings vestra kemur fram að verið sé að hleypa vatni á lögnina og gæti það tekið allt að 2 klst.