Bilunin reyndist minniháttar

Bilun sem olli rafmagnsleysi á Sauðárkróki í gær reyndist minni en talið var í fyrstu en hana mátti rekja til skynjara í aflpenni í spennistöðinni á Sauðárkróki. Viðgerð er lokið og allt á að vera komið í samt lag, að sögn Steingríms Jónssonar hjá RARIK 

Rafmagnslaust var á Sauðárkróki og nágrenni frá því á um tíu leytið í gærmorgun fram eftir degi en böndin beindust fljótlega að aflspenninum í spennistöðinni að sögn Steingríms. Skynjari gaf til kynna hitamyndun í aflspenninum, sem benti til bilunar, en síðar kom í ljós að bilunin var í skynjaranum sjálfum.

Á meðan að óvissa ríkti um hvar bilunin væri nákvæmlega var ekki hægt að bregðast við á annan hátt en að um bilaðan spenni væri um að ræða. RARIK var því í viðbragðsstöðu, fékk nýjan spenni á staðinn og varaafl var aukið.

Nú er viðgerð lokið og allt á að vera komið í samt lag.  „Við sendum varaspennan tilbaka en munum ekki flytja allar dísel vélarnar aftur. Við fylgjumst vel með þessu og erum að gera ráðstafanir ef ske kynni að þetta gerðist aftur, þá ættum við að vera í betri stöðu,“ sagði Steingrímur í samtali við Feyki.

 

Fleiri fréttir