Bjarki Már tekinn við liði Reynis í Sandgerði

Bjarki með bikarinn á lofti eftir að Stólarnir tryggðu sér sigur í 3. deildinni sumarið 2016. Það sumar töpuðu Stólarnir fyrsta leik tímabilsins en unnu síðan alla 17 leikina þar á eftir. MYND: ÓAB
Bjarki með bikarinn á lofti eftir að Stólarnir tryggðu sér sigur í 3. deildinni sumarið 2016. Það sumar töpuðu Stólarnir fyrsta leik tímabilsins en unnu síðan alla 17 leikina þar á eftir. MYND: ÓAB

Knattspyrnukappinn Bjarki Már Árnason, sem búið hefur á Hofsósi til fjölda ára, hefur nú fært sig um set en hann hefur verið ráðinn þjálfari hjá 2. deildar liði Reynis í Sandgerði. Bjarki er búinn að spila meistaraflokksfótbolta í 25 ár, hóf leik í Keflavík 1997 og lék nú síðast með liði Kormáks/Hvatar en hann var þó lengstum í herbúðum Tindastóls.

Samkvæmt tölfræði á heimasíðu KSÍ á Bjarki að baki 430 leiki og í þeim hefur varnarjaxlinn gert 46 mörk sem verður að teljast bísna gott – sennilega hafa flest mörkin komið eftir hornspyrnur eða föst leikatriði eins og oft vill verða hjá varnarmönnum.

Sem fyrr segir hóf hann ferilinn í heimabyggðinni Keflavík, skipti í Skallagrím 1999 og snéri síðan aftur í Keflavík 2001. Árin 2002 og 2003 lék hann með Aftureldingu í Mosfellsbæ en hann hélt síðan norður á Krók 2005 þar sem hann lék fyrst í sjö tímabil, var síðan eitt sumar með Drangey á Króknum en skipti síðan sumarið 2013 í Magna Grenivík þar sem hann var eitt tímabil. Aftur skipti hann yfir í Stólana og lék með þeim í 1. deild 2014 og flakkaði með liðinu milli deilda allt þar til hann skipti yfir í Kormák/Hvöt 2019. Hann lék stórt hlutverk í að koma liði Kormáks/Hvatar upp í 3. deild síðasta sumar og hóf leik með K/H nú í vor en nú leiðir fótboltaævintýrið hann á ný suður með sjó.

Ekki má gleyma að Bjarki var aðalþjálfari Tindastóls í tvö ár, aðstoðarþjálfari í þrjú og hálft ár, tvö ár aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Tindastóli og svo þjálfaði hann Kormák/Hvöt tímabilin 2019 og 2020.

„Notið mín í botn frá degi eitt“

Bjarki tjáði Feyki að hann væri mjög spenntur fyrir því að taka við liði Reynis og verkefnið væri bæði spennandi og krefjandi. Liðið situr á botni 2. deildar með þrjú stig eftir átta leiki og það þótti Sandgerðingum ekki gott mál og sögðu þjálfaranum, Luka Jagacic, upp störfum. Raunar eru fjögur önnur lið á svipuðu reki og lið Reynis og einn sigur kæmi liði Bjarka Más upp úr fallsæti. Þannig að staðan er langt frá því vonlaus enda 14 umferðir enn óspilaðir.

Auk þess að vera á kafi í fótbolta og sinna öðrum áhugamálum á Hofsósi og víðar hefur Bjarki starfað sem kennari við Grunnskólann austan Vatna og nú síðustu árin var hann aðstoðarskólastjóri. Feykir spurði Bjarka hvort það væri ekki söknuður að kveðja Hofsós. „Það var mjög erfitt að fara úr firðinum fagra enda [hef ég] notið mín í botn frá degi eitt,“ sagði Bjarki.

Feykir óskar Bjarka Má velfarnaðar á nýjum slóðum og þakkar fyrir góð samskipti í gegnum tíðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir