Bjartsýn á að markmiðin náist

Tilraunaverkefni um menntun í Norðvesturkjördæmi hófst í byrjun þessa árs og haldið verður áfram með það framyfir næstu áramót. Það eru Háskólinn á Bifröst, Símenntunarmiðstöðvarnar þrjár í kjördæminu; Símenntunarmiðstöð Vesturlands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra sem standa að verkefninu, auk aðkomu framhaldsskólanna og fleiri aðila.

Að sögn Bryndísar Þráinsdóttur, forstöðumanns Farskólans, hefur verkefnið þegar skilað umtalsverðum árangri. Þannig hafa 28 einstaklingar farið í gegnum raunfærnimat á Norðurlandi vestra frá því að verkefnið hófst, þar af átta í matartækni, sautján í fisktækni, tveir í skipstjórn og einn í skrifstofutækni. Aðalheiður Reynisdóttir, sem var náms-og starfsráðgjafi hjá Farskólanum síðasta vetur, hafði umsjón með þessu.

Bryndís segist reikna með sprengingu í raunfærnimati á Norðurlandi vestra á næstu misserum. Í raunfærnimati felst að fólk fer gegnum ákveðið mat til að meta þekkingu sína, einkum í verklegum greinum, og fær þannig starfsreynslu sína metna til eininga. Samtals er búið að raunfærnimeta 855 einingar sem samsvarar einingafjölda til rúmlega sex stúdentsprófum að einingafjöld. Farskólinn hefur þegar náð þeim markmiðum sem sett voru varðandi fjölda einstaklinga sem færi í raunfærnimat.

Sautján þátttakendur luku í vor raunfærnimati í fiskvinnslu á Sauðárkróki. Bryndís nefnir að þessir nemendur hafi að meðaltali fengið metnar 43 einingar, en námið í heild telur sjötíu einingar. Sextán af þeim munu hefja nám í haust á fisktæknibraut á vegum Farskólans og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra en námið er kennt í samvinnu við Fisktækniskólann.

Guðrún Sighvatsdóttir skrifstofustjóri sagði í samtali við Feyki að miklar breytingar væru framundan hjá FISK, bæði í landvinnslu og útgerð og menntun starfsfólks væri veigamikill þáttur í því að tryggja að fyrirtækið yrði áfram í fremstu röð í sinni grein. „Það er okkur hjá FISK sérstakt gleðiefni að nú skuli vera hafin kennsla í fisktækni  á vegum FNV og Farskólans,“ sagði Guðrún.

„Nokkuð mörg ár eru síðan stjórnendur fyrirtækisins hófu máls á því við fræðsluaðila og fleiri að tilfinnanlega vantaði nám fyrir starfsfólk í fiskiðnaði og sjávarútvegi. Lengi hefur verið talað um það í hátíðarræðum og á tyllidögum að tengja þurfi saman atvinnulíf og skóla og við lítum svo á að hér sé komin raunhæfur kostur til þess,“ sagði Guðrún ennfremur.

Bryndís segir  næstu skref í verkefninu séu að auka kraftinn í heimsóknum í fyrirtæki , svokallaðan fræðsluerindrekstur, en heimsóknunum munu starfsmenn Farskólans, ásamt náms- og starfráðgjöfum , sinna af kappi á næstu vikum og mánuðum. „Við förum skipulega í fyrirtækin og bjóðum þeim aðstoð meðal annars „fræðslustjóra að láni“ og við skipulagningu námskeiða sem tengjast starfseminni,“ útskýrir Bryndís.

Verkefninu lýkur svo janúarlok á næsta ári. Bryndís er bjartsýn á að þau markmið sem sett voru með verkefninu í upphafi náist. Meðal markmiðanna var að heimsækja 120 fyriræki í kjördæminu öllu og að út úr því kæmu 120 námstilboð eða námskeið tengd starfsemi hvers fyrirtækis fyrir sig og væru helst einingabær. „Ég er bjartsýn á að þessi markmiði náist, þó það geti orðið erfitt á svona  stuttum tíma, og hefði kannski verið heppilegra að hafa þetta verkefni til tveggja ára. Fyrirtækin þurfa allaf svolítið langan tíma til að hugsa sig um,“ segir Bryndís.

„Fræðslustjóri að láni“ er fyrirbæri sem Bryndís telur að fyrirtæki ættu að nýta í mun meira mæli. Um er að ræða ferli þar sem svokallaður markviss-ráðgjafi kemur inn í fyrirtækin, gerir þarfagreiningu og kannar mannauðinn innan fyrirtækisins og gerir fræðsluáætlun, sem að símenntunarmiðstöðvarnar eða aðrir aðilar geta framfylgt með námsframboði. Fræðslustjórinn er fyrirtækjunum jafnan að kostnaðarlausu, þar sem aðilar eins og Ríkismennt veita styrki í slík verkefni.

 

Fleiri fréttir