HÚNAVAKA : „Það verður fullt hús hjá okkur hjónunum“
Það er víst ótrúlega oft hægt að plata Auðun Sigurðsson í að gera hitt og þetta. Því plataði Feykir hann til að svara örfáum spurningum um Húnavökuna. „Ég bý á Blönduósi og hef gert það lungan úr mínu lífi. Þessa dagana er ég einna helst að sinna minni vinnu, ditta að heima hjá mér og leika golf í frístundum,“ segir þessi fyrrum markvörður Hvatar í fótboltanum.
Hvað ætlar þú að gera á Húnavöku í ár? „Á Húnavöku ætla ég að skemmta mér eitthvað, leika við barnabörnin, elda góðan mat, spila golf á Húnavökumótinu og hitta skemmtilegt fólk. Það verður fullt hús hjá okkur hjónunum af okkar dásamlega fólki og það verður gaman.“
Ef Húnavaka væri knattspyrnulið Hvatar á síðustu öld, hverjir væru í úrvalsliðinu? „Þarna þarf ég lítið að hugsa mig um en þó þarf maður að vanda sig við valið því margir koma til greina en þó leita ég fanga í mitt gamla lið frá 1980 og eitthvað. Varnarmenn væru Gummi Sveins, Kiddi Guðmunds, Örn Gunnars og Villi Stef. Miðjan væri Gísli Torfi, Hemmi Ara, Ásgeir Valla og Orri Baldurs. Frammi væru markahrókarnir þeir Páll Leó og Rúnar fyrrum Man.United leikmaður. Ætli ég tæki svo ekki markið sjálfur.“
Hvenær var eftirminnilegasta Húnavakan? „Ætli eftirminnilegasta Húnavakan hafi ekki verið 1983 en þá var maður loksins kominn með aldur til að fara á böllin en í þá daga gilti ekki árið heldur afmælisdagurinn og ég er svo heppinn að eiga afmæli í desember og það var ekki sjéns að maður fengi að fara á böllin fyrir 16 ára aldurinn.“
Hvernig lýsir þú Húnavöku í fimm orðum? „Gleði, skemmtilegt, brottfluttir, söngur og vöfflur.“
Áttu einhverja sögu frá Húnavöku fyrri ára? „Ja, kannski ekki sögur en það var alltaf þannig í „gamla daga“ að böllin voru nánast öll kvöld Húnavöku sem þá stóð yfir í heila viku og kannski var eftirminnilegast að alltaf voru tvær bíósýningar með nýjustu bíómyndunum úr bíóhúsunum fyrir sunnan. En þá var það sama og með böllin, þú þurftir að vera kominn með aldur til að mega mæta og ekki var ég alltaf svo heppinn að mega fara í bíó, líkt og sumir bekkjarfélagar mínir.“
Auðunn enn svolítið sár en hann hristir sárindin af sér um helgina – enda kominn með aldur til að gera allt sem hann langar til.