Blikar í einangrun og leik frestað gegn Stólum

Leik Breiðabliks og Tindastóls sem var á dagskrá í kvöld í Subway deildinni hefur verið frestað vegna einangrunar leikmanna Breiðabliks. Samkvæmt tilkynningu frá KKÍ hefur leiknum verið fundinn nýr leiktími mánudaginn 7. febrúar kl. 19:15. Einn leikur fór fram í gærkveldi Blue-höllin í Keflavík þar sem heimamenn töpuðu óvænt fyrir ÍR 77 – 94.

Samt sem áður trónir Keflavík á toppi deildarinnar með 20 stig eftir 14 leiki, nágrannar þeirra í Njarðvík koma næstir með 18 stig en hafa spilað einum leik færra, Þór Þorlákshöfn í því þriðja með 16 stig eftir 12 leiki og Valur í fjórða með 14 stig eftir 11 leiki. 
Grindavík, Stjarnan og Tindastóll raða sér í næstu sæti með jafn mörg stig og Valur en Garðbæingar hafa leikið 13 leiki en hin tvö aðeins tólf.
ÍR situr í áttunda sæti með tólf stig og svo koma Breiðablik og KR í næstu tveimur sætum með 10 stig og lestina reka lið Vestra og Þórs Akureyri, Vestfirðingar með sex stig og Eyfirðingar skrapa botninn með tvö stig.
Næsti leikur Tindastóls verður háður nk. mánudag þegar KR mætir á Krókinn og hefst hann klukkan 19:15.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir