Blöndulína 3 í gegnum sæstreng

Svona mun nýji strengurinn vera uppbyggður, hefur getu til að flytja þá orku sem krafist er af Blöndulínu 3 og Héraðsvötnin munu ná að halda hitastigi strengsins innan eðlilegra marka. Teikning: Sveinn Margeirsson.
Svona mun nýji strengurinn vera uppbyggður, hefur getu til að flytja þá orku sem krafist er af Blöndulínu 3 og Héraðsvötnin munu ná að halda hitastigi strengsins innan eðlilegra marka. Teikning: Sveinn Margeirsson.

Nú glittir í að ný tækni geri það kleift að koma Blöndulínu 3 í jörð en mikill styr hefur staðið um lagningu stóriðjulínu þvert yfir Skagafjörð. Tæknin er sambærileg þeirri sem býr að baki sæstreng og gæti legið eftir Héraðsvötnum. Sveinn Margeirsson frá Mælifellsá í fyrrum Lýtingsstaðarhreppi hefur verið einn af forystumönnum þeirra sem vilja strenginn í jörð. Hefur Landsnet ætíð borið því við að vegna tæknilegra örðuleika væri einungis hægt að leggja strenginn þrjá km leið í Skagafirði og hefur honum verið ætlaður að liggja neðan Vindheimamela.

Nú hefur von kviknað í brjósti Skagfirðinga, sem óttast sjónræna mengun stórra rafmagnsmastra í héraðinu, þar sem Sveinn hefur fundið tækni sem ætti að geta leyst vandamálið.

Kortið sýnir fyrirhugaða línu eins og staðan er í dag en nýjasta hugmyndin gerir ráð fyrir að sæstrengurinn liggi um 7 km leið eftir endilöngum Héraðsvötnum, sbr. bláu línuna. Gula línan sýnir svo þann möguleika að leggja strenginn í stokki eða röri sem Norðurá muni einnig renna eftir.

„Ég hef búið erlendis núna síðustu vikurnar og gruflað mikið í þessum málum. Svo datt ég niður á lausn sem ætti að henta fyrir þetta verkefni. Það er sambærilegt sæstrengslagningu milli landa en í stað þess að leggja í hafið verður strengurinn lagður eftir Héraðsvötnunum endilöngum. Þriggja kílómetra jarðlagningin gæti þá verið frá Varmahlíð austur að Vötnunum og svo tekur þessi nýi strengur við og flytur rafmagnið að mynni Norðurárdals. Svo þarf bara að skoða hvað gert er í framhaldinu. Mér skilst að hægt sé að leggja strenginn í stokk upp að Öxnadalsheiði en með þeim annmörkum að Norðuráin rynni eftir stokknum sem yrði í raun lokaður. Það er þá í verkahring Akrahrepps að ákveða það,“ segir Sveinn.

Hann segir tæknina nýja en þó séu Kínverjar komnir með örlitla reynslu á hana. „Mér skilst að kapallinn hafi verið lagður frá stórri virkjun í Liaoning héraði í norð-austur Kína um 50 km langa leið og gengur vel,“ segir Sveinn sem nú er staddur í Skagafirði til að kynna sveitarstjórnarfólki þessa tækni.

Sveinn ætlar einnig að kynna þetta verkefni fyrir áhugasama í Húsi frítímans á Sauðárkróki klukkan 15 í dag og  í Menningarhúsinu Miðgarði klukkan 19. „Ég vonast til að sjá sem flesta því hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkar fallega hérað,“ segir Sveinn.

ÞESSI FRÉTT ER APRÍLGABB!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir