Borgin er nýr veitingastaður á Skagaströnd
Í byrjun september opnaði Þórarinn Ingvarsson matreiðslumaður nýjan veitingastað á Skagaströnd sem hefur hlotið heitið Borgin, eftir hinu þekkta fjalla Spákonufellsborg. Staðurinn er rekinn í húsnæði Kántríbæjar á Skagaströnd en sjálfur er Þórarinn kominn aftur heim eftir aldarfjórðungs fjarveru frá heimabænum.
Í Morgunblaðinu á þriðjudaginn var sagt frá opnun staðarins og rætt við Þórarinn. Fram kemur að hann bjó í sjö ár í Danmörku þar sem hann vann á krá, grillhúsi, á smurbrauðsstað, fínu hóteli og í Messecenter í Hernig sem er risastór sýninga- og ráðstefnustaður. Eftir að Þórarinn flutti aftur til Íslands var hann m.a. yfirkokkur á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit og eitt ár á Sel hóteli við Mývatn. Að því búnu fluttist hann aftur til Skagastrandar.
„Staðnum hér hafði verið lokað og ég hugsaði með mér: því ekki að nota tækifærið, nýta alla þá kunnáttu og reynslu sem ég hef aflað mér og fara aftur heim? Ég hef fengist við að grilla hamborgara, útbúa fínustu rétti á gæðaveitingastöðum og allt þar á milli – og hér verður allt í boði; við erum með hamborgara, pitsur, grillsteikur, ég tek að mér veislur, verð með villibráðarhlaðborð og jólahlaðborð. Stolt staðarins er þó að sjálfsögðu ferskur fiskur úr flóanum; fiskur sem ég ber fram, snarkandi heitan á pönnu. Það er unun að geta boðið upp á slíkt,“ sagði Þórarinn í viðtalinu við Morgunblaðið á þriðjudaginn.