Börnin þurfa að ganga á götunni
Þegar blaðamaður Feykis.is labbaði í vinnuna í morgun á Sauðárkróki lennti hann í þeirri óskemmtilegu reynslu að þurfa að ganga á götunni alla leið í gegnum neðri bæinn á Sauðárkróki. Snjó af götunum hafði verð rutt upp á gangstéttirnar og var blaðamaður því í félgasskap yngstu borgara bæjarins sem voru að ganga í skólann, líka á götunni.
Ofar í bænum hafa gangstéttir verið ruddar en oft er eins og gamli bærinn sitji eftir. Á svæðinu frá Ráðhúsi og niður að Árskóla í Freyjugötu eru gatnamót sem börnin þurfa að fara yfir og þar var ekki nokkur leið að ganga annars staðar en á götunni. -Að sjálfsögðu þarf fólk, bæði fullorðnir og börn, að fara mjög varlega og ökumenn sérstaklega að passa sig á ungum vegfarendum sem eru á vappi á götunum, segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. -Annars hefur umferðin gengið gríðarlega vel og fólk mikið að passa sig eins og yfirleitt er þegar fyrsta hálkan og snjórinn kemur, bætir hann við.
Að veðrinu er annars að frétta að vindurinn hefur hægt á sér niður í kyrrstöðu og frost er upp undir 10 gráður á Sauðárkróki.