Breytingar í stjórnun Háskólans á Hólum

Hólar í Hjaltadal. Mynd: PF.
Hólar í Hjaltadal. Mynd: PF.

Þann 1. ágúst sl. voru gerðar breytingar á skipulagi Háskólans á Hólum sem miða að því að draga úr yfirbyggingu í stjórnun skólans og færa fjármagn yfir í aukna þjónustu til starfsmanna. Edda Matthíasdóttir, sem áður var sviðsstjóri mannauðs, gæða og rekstrar hjá skólanum hefur nú verið ráðin sem framkvæmdastjóri hans.

Í tilkynningu frá skólanum segir að sem framkvæmdastjóri Háskólans á Hólum hafi Edda yfirumsjón yfir allri miðlægri stjórnsýslu skólans, bæði á sviði mannauðs, gæða og rekstrar og á sviði rannsókna, nýsköpunar og kennslu. Framkvæmdastjóri skólans er einnig staðgengill rektors þegar svo ber undir. Einnig kemur fram að eitt mikilvægasta málefni skólans þessa dagana sé að fjármagna og byggja nýtt húsnæði fyrir Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum og mun Edda leiða það verkefni fyrir hönd skólans.

„Edda er menntuð í stjórnunar- og viðskiptafræðum og hefur unnið í fjölmörg ár við stjórnun framkvæmdaverkefna. Það er mikill kostur fyrir skólann að hafa framkvæmdastjóra með víðtæka reynslu af fjárfestingum og úr byggingageiranum þegar við hefjum vegferð okkar að byggingu nýs skólahúss fyrir fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Þá hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, skipað nýja fulltrúa í háskólaráð, sem fer með stjórn Háskólans á Hólum ásamt rektor en í því sitja að jafnaði rektor, tveir fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólafundi, einn fulltrúi stúdenta sem tilnefndur er af stúdentafélagi Háskólans á Hólum, einn fulltrúi tilnefndur af ráðherra og tveir fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Samkvæmt tilkynningunni var Lilja Sigurlína Pálmadóttir, hrossaræktandi á Hofi á Höfðaströnd, skipuð til setu í háskólaráði sem aðalmaður og sr. Gísli Gunnarsson sem varamaður. Laufey Kristín Skúladóttir, sem setið hefur í háskólaráði sem fulltrúi ráðherra, víkur úr ráðinu sem og hennar varamaður, Guðmundur M. Skúlason, reiðkennari og tamningamaður og eru þeim þökkuð vel unnin störf í þágu Háskólans á Hólum og óskað alls hins besta af stjórnendum skólans.

Lilja er útskrifaður reiðkennari frá hestafræðideild Háskólans á Hólum og þekkir því vel til skólans. Sr. Gísli Gunnarson þekkir einnig vel til skólans í gegnum störf sín í Skagafirði, bæði sem prestur og sem sveitarstjórnarfulltrúi. Gísli hefur verið skipaður vígslubiskup á Hólum frá og með 1. september.

„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Lilju og Gísla til liðs við okkur og bjóðum þau hjartanlega velkomin. Lilja er mikil áhugamanneskja um íslenska hestinn og Hólastað almennt sem mun koma sér vel fyrir skólann. Sömu sögu má segja um Gísla sem mun taka við embætti vígslubiskups á Hólum 1. september næstkomandi. Gísli hefur í gegnum tíðina verið ötull talsmaður Hólastaðar. Háskólinn byggir á traustum grunni rannsókna og kennslu en ekki síður sögu og menningar. Ég hlakka til að starfa með Lilju og Gísla,“ segir Hólmfríður og bætir við að það sé gott til þess að hugsa hversu öflugt fólk starfi við háskólann því fjölmörg skemmtileg og krefjandi verkefni séu framundan sem öll miða að því að efla Háskólann á Hólum en ekki síður samfélagið sem skólinn starfar í.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir