Breytum ekki konum – Breytum samfélaginu
„Nú er nóg komið! Krefjumst jafnra kjara og öryggis á vinnustað! Göngum út 24. október og höfum hátt!,“ segir á vefsíðunni kvennafri.is. Þar kemur fram að daglegum vinnuskyldum kvenna sé lokið kl. 14:55 þar sem meðalatvinnutekjur kvenna væru 74% af meðalatvinnutekjum karla. Í tilefni dagsins verður haldinn samstöðufundur á hótel Varmahlíð kl 15:30 í dag.
Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 í dag, miðvikudaginn 24. október, og fylkja liði að Varmahlíðarskóla, taka þátt í baráttugöngu um Varmahlíð og mæta á samstöðufund á hótel Varmahlíð kl 15:30.
Hvatningin er lögð fram undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Á kvennafri.is. segir að samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna voru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17.
Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55.
Að fundinum standa konur í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.