Brýnt að ríki og sveitarfélög gangi í takt

„Nú er tími samstarfs og samstöðu ríkis og sveitarfélaga.  Aldrei fyrr hefði verið meiri ástæða til að ganga í takt,“ sagði Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í ræðu við upphaf fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun. Hann nefndi meðal annars  eftirfarandi um stöðuna og möguleg viðbrögð:

• Mikil óvissa ríkir um fjármál sveitarfélag, vinna við fjárhagsáætlanir næsta árs er í sumum þeirra er varla hafin og menn bíða eftir því að vita eitthvað meira um forsendur.
• Aðgerðaáætlanir og fjárhagsáætlanir eru unnar í góðu samstarfi meiri- og  minnihluta, sem er til fyrirmyndar „enda höfum við ekki efni á að standa í deilum við þessar erfiðu aðstæður“.
• Það er lykilatriði að sveitarfélögin stilli saman strengi sína í gjaldskrármálum hvort sem það verður fólgið í því að frysta gjaldskrár eða hækka gjöld. Við svona aðstæður er heppilegast fyrir okkur að við fylgjumst að í þessum málum. Það er líka mikilvægt að ríki og sveitarfélög stilli saman strengi sína í þessum sömu málum og fylgist að.
• Það er áhyggjuefni varðandi sameinuð sveitarfélög með marga byggðakjarna ef þau þurfa að „hagræða til blóðs“ vegna efnahagssamdráttarins. Þar á ég  við ef þau neyðast til að leggja niður skóla í minni byggðalögum sameinaða sveitarfélagsins. Það er hætt við að slíkt vinni mjög gegn sameiningu, að minnsta kosti frjálsri sameiningu.
• Það hefur komið illilega í ljós að tekjur sem sýndar voru í ársreikningum 2007 eru ekki réttar því þar er sala á lóðum stór tekjuliður.  Nú er sá liður dottinn út og það sem verra er: búð er að skila og endurgreiða lóðirnar aftur í tímann svo skiptir milljörðum króna.

Ekki hægt að útiloka hækkun skatta og gjalda

Halldór sagði að nú væri tími samstarfs og samstöðu ríkis og sveitarfélaga.  Aldrei fyrr hefði verið meiri ástæða til að ganga í takt. Sum sveitarfélög stæðu sterkt, önnur veikt og hafðu fyrir löngum „skorið rekstur sinn að beini.  Engan veginn væri  hægt að útiloka að ríkið kæmi að fjármögnun með aukaframlögum meðan komið er yfir erfiðasta hjalla:

„Við höfum lýst því yfir í sveitarfélögunum og erum studd af sameiginlegri yfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga sem fyrr segir, að við ætlum að standa vörð um grunnþjónustuna, en stærsti hluti af verkefnum sveitarfélaga er grunnþjónusta við íbúana, skólar, félagsþjónusta, öldrunarþjónusta og svo framvegis. Fyrirséð er að útgjaldaaukning verður í rekstrinum, samningar allra stétta hjá sveitarfélögum nema grunnskólakennara eru lausir í lok nóvember, tekjulækkun er fyrirséð og kallað er eftir því að sveitarfélögin haldi áfram framkvæmdum. Það þarf ekki mikla þekkingu í rekstri til að sjá að þessi formúla gengur ekki upp.
Þess vegna er ekki hægt að útiloka hækkun á sköttum sveitarfélaga og þjónustugjöldum, að lýsa öðru yfir væri óábyrgt og ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Áður en slíkt kemur til álita er krafan þó sú að allra mögulegra hagræðingarleiða verði leitað í rekstrinum.“
Tækifæri til hagræðingar og sameiningar í fræðslumálum

Halldór sagði mikilvægt að hafa opin augu fyrir tækifærum til hagræðingar, ekki síst í fræðslumálum, sem eru stærsti útgjaldaliður allra sveitarfélaga:

„Þetta á ekki síst við í fræðslumálum, sem er stærsti útgjaldaliður allra sveitarfélaga. Í nýjum lögum um leikskóla og grunnskóla er opnað á sameiningu þessara stofnana, ásamt tónlistarskólum, í eina stofnun undir stjórn eins skólastjóra. Í sömu lögum er einnig kveðið á um skyldu allra sveitarstjórna til að samþykkja skólastefnu. Ég tel mikilvægt að við gerð skólastefnu horfi sveitarstjórnarmenn sérstaklega til þess hvort núverandi fyrirkomulag skólamála sé hagkvæmt og ráðast í breytingar ef menn sjá tækifæri til hagræðingar, t.d. með því að sameina stofnanir. Í dreifmennt felast einnig tækifæri og þar getum við lært af samstarfi grunnskólanna á sunnanverðum Vestfjörðum við grunnskóla á Snæfellsnesi og Framhaldsskóla Snæfellinga. Sem dæmi má nefna að eðlisfræðikennarinn á Patreksfirði kennir 37 nemendum í Stykkishólmi og Snæfellsbæ í fjarkennslu. Í raun er ekkert því til fyrirstöðu að fjölga í nemendahópnum með þátttöku fleiri grunnskóla, þess vegna annars staðar á landinu. Þess má geta að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga styrkir myndarlega þetta verkefni auk þess sem menntamála- og iðnaðarráðuneytið taka þátt í fjármögnun þess.“
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hvatti félaga sína undir lokin til að koma auga á tækifærin og vaxtarsprota i þeirri stöðu sem menn væru nú í. Öll él myndu stytta upp um síðir.

Fleiri fréttir