Byggðaráð vill ekki lögsækja Íslandspóst
Reykhólahreppur hefur sent byggðaráði Skagafjarðar erindi þar sem farið er þess á leit að Skagafjörður taki þátt með sveitarfélögum sem verða fyrir þjónustuskerðingu af hendi Íslandspósts hf að lögsækja fyrirtækið.
Byggðaráð afgreiddi málefni póstafgreiðslunnar á fundi sínum 4. september 2008 með eftirfarandi hætti: “Sveitarstjóri gerði grein fyrir fundi hans og sveitarstjórnarkvenna með forstjóra Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu fyrirtækisins í Varmahlíð. Byggðarráð ítrekar mótmæli við ákvörðun Íslandspósts um lokun póstafgreiðslu í Varmahlíð. Varmahlíð er einn af byggðakjörnum Skagafjarðar með um 140 íbúum og nokkrum fyrirtækjum. Þjónustusvæði póstafgreiðslunnar í Varmahlíð er hinsvegar mun stærra en þéttbýlið sjálft því hundruð manna og tugir fyrirtækja búa og starfa í næsta nágrenni. Þá hefur Varmahlíð verið vaxandi ferðamannastaður og áætlanir um mikla uppbyggingu á því sviði. Ekki má gleyma því að Íslandspóstur er ríkisfyrirtæki í almannaþjónustu og yfirlýst stefna ríkisvaldsins að fjölga störfum á landsbyggðinni en ekki fækka. Lokun póstafgreiðslunnar í Varmahlíð þýðir fækkun opinberra starfa í Skagafirði. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggst alfarið gegn því að póstafgreiðslunni í Varmahlíð verði lokað”
Gísli Árnason, vinstri grænum, lagði á fundinu fram tillögu þess efnis að Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti að taka þátt í lögfræðikostnaði með þeim sveitarfélögum sem hafa orðið fyrir eða verða fyrir skerðingu á póstþjónustu.
Meirihluti byggðaráðs taldi ekki forsendur til þess að leggja út í þann kostnað sem málshöfðum hefði í för með sér þar sem fyrir liggi staðfesting Póst og fjarskiptastofnunar þar sem lokun afgreiðslunnar er heimiluð.