Byggðasafn Skagfirðinga í bráðabirgðahúsnæði þar til menningarhús rís á Sauðárkróki

Áætlað er að menningarhús muni rísa við Safnahúsið á Sauðárkróki í framtíðinni. Mynd: PF.
Áætlað er að menningarhús muni rísa við Safnahúsið á Sauðárkróki í framtíðinni. Mynd: PF.

Í kjölfar frétta Feykis, um að setur sem tileinkað verður Sturlungu og Örlygsstaðabardaga verði sett upp í Aðalgötu 21-21a á Sauðárkróki, er ljóst að Byggðasafni Skagfirðinga bíður varanlegur staður annars staðar en þar. Gert var ráð fyrir því í fyrstu að starfsemi þess, sem hefur verið í Minjahúsinu, flyttist þangað. Áætlað er að Byggðasafnið verði staðsett í menningarhúsi á Sauðárkróki.

Í Minjahúsinu á Sauðárkróki hefur aðalgeymsla safnsins og skrifstofa Fornleifadeildar verið til margra ára. Mynd: PF.

 Aðspurður um hvað verði um Byggðasafnið segir Gunnsteinn Björnsson, formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar, að vinna við það sé vel á vegi stödd þó það verði enn um sinn til bráðabirgða. „Safnið er í þremur meginhlutum. Byggðasafnið í Glaumbæ og sú starfsemi sem verið hefur í Minjahúsinu. Stærsti hlutinn er vörslurými en Sveitarfélagið er búið að leysa þann hluta til bráðabrigða þar sem keypt voru bil í nýju húsi sem er í byggingu við Borgarflöt.“ Hann segir að vinna þarfagreiningarhóps vegna Menningarhúss sem ráðgert er að byggja við Safnahúsið á Sauðárkróki sé langt komin og þar sé gert ráð fyrir varanlegum geymslum sem verða væntanlega með því besta sem í boði verða á landinu.
„Geymslurnar verða sérbyggðar fyrir þessa starfsemi sem og héraðsskjalasafnsins. Þessi vinna er langt komin og ríkið hefur gengist við sínum skyldum að ljúka við það að koma því menningarhúsi upp sem eftir er. Það var ríkið sem óskaði eftir því á sínum tíma að því verkefni yrði frestað en það var tekið upp aftur á þessu kjörtímabili. Við eigum von á því að þetta fari inn í ríkisfjármálaáætlun með vorinu,“ segir Gunnsteinn.

Litið yfir nyrsta hluta Króksins sem margir hafa séð fyrir sér sem túristasvæði. Puffins and Friends var opnað síðasta sumar og nú er stefnt á opnun sýndarveruleikasafn um Sturlunga. Mynd: PF

 Hvað verði um sýningarnar sem voru í Minjahúsinu, t.d. Gömlu verkstæðin, segir Gunnsteinn að verið sé að finna út úr því. „Það er ekki alveg búið að ganga frá því, svo ég get ekki tjáð mig um það á þessari stundu. Þetta eru litlar sýningar og ekki nein gífurleg aðsókn að þeim svo við þurfum helst að ná samlegð með annarri starfsemi.“

Gunnsteinn segir að óskað hafi verið eftir því við stjórn Náttúrustofu Norðurlands vestra að skrifstofuhluti Byggðasafnsins fengi aðstöðu í húsnæði hennar að Aðalgötu 2 til bráðabirgða. „Það er langt komið að leysa alla hluti í kringum Byggðasafn Skagfirðinga og ég held að þegar þessu ferli verður öllu lokið verði staðan orðin með því betra sem að þekkist á landinu.

Stærsti hluti Minjahússins er vörslurými en Sveitarfélagið er búið að leysa þann hluta til bráðabrigða þar sem keypt voru bil í nýju húsi sem er í byggingu við Borgarflöt. Mynd: PF.

 Sigríður Sigurðardóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, upplýsti á Facebooksíðu sinni að hún hefur sagt upp stöðu sinni hjá safninu. Gerði hún það skriflega þann 5. mars sl. og segir hún ástæðu uppsagnarinnar vera það fyrirhyggjulausa pólitíska inngrip sem gert var í starfsemi safnsins í formi húsnæðishrókeringa, ófagleg málsmeðferð og fálæti um stöðu og framtíðarsýn safnsins.

„Ég beinlínis treysti mér ekki til þess að leiða safnið út úr þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Það sem verra er að eftir langt starf við uppbyggingu þess sem menningarstofnunar upplifi ég þöggun. Við blasir húsnæðisvandi til langs tíma, hefting áætlana, áhættusöm aðstaða varðveislu safnkostsins og yfirhöfuð mikil röskun á starfseminni, sem fjötrar safnið í einhver ár. Hvorki hefur verið fjallað safnfaglega né málefnalega um þetta inngrip eða stöðuna sem upp er komin við mig og þar sem á því virðist ekki ætla að verða nein breyting var niðurstaða mín sú að safnið yrði betur komið án mín,“ skrifar Sigríður á Facebook.

Hún segir safnið hafa stundað öfluga rannsókna- og fræðslustarfsemi á undanförnum áratugum og starfsmenn þess taki á móti tugþúsundum gesta á hverju ári. „Það er vitnisburður um stöðu safnsins í íslenska safnaheiminum að það hlaut íslensku safnaverðlaunin árið 2016 fyrir starfsemi sína. Ég vona sannarlega að Byggðasafn Skagfirðinga sigli í heilu lagi í gegnum þennan brotsjó með nýjan safnstjóra í stafni og ég óska þeim afbragðs starfsmönnum sem við það starfa alls hins besta í framtíðinni.“

Tengdar fréttir:
Setur tileinkað Sturlungu og Örlygsstaðabardaga sett upp í Aðalgötu 21-21a
Þarfagreining vegna menningarhúss á Sauðárkróki

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir