Byrjað að leggja Sauðárkrókslínu 2

Frá framkvæmdum við Sauðárkrókslínu 2. Mynd: FB-síða Landsnets.
Frá framkvæmdum við Sauðárkrókslínu 2. Mynd: FB-síða Landsnets.

Steypustöð Skagafjarðar Ehf. er komin af stað við lagningu Sauðárkrókslínu 2 en vegna áforma um aukna orkunotkun á Sauðárkróki á að styrkja tengingu svæðisins við flutningskerfið. Við það eykst orkuafhending og afhendingaröryggi með því að leggja 66 kV jarðstreng, Sauðárkrókslínu 2, frá Varmahlíð að nýju tengivirki á Sauðárkróki.

Á heimasíðu Landsnets kemur fram að eina tenging Sauðárkróks við flutningskerfið sé 66 kV loftlína frá Varmahlíð sem orðin er rúmlega 40 ára gömul og mun tilkoma jarðstrengsins auka orkuöryggi og meira en tvöfalda flutningsgetu að svæðinu. Jarðstrengurinn, sem verður um 24 km langur, mun liggja samsíða núverandi loftlínu hálfa leiðina að Sauðárkróki en við Sauðárkróksbraut nyrðri helming leiðarinnar.

Þá verður núverandi loftlína, Sauðárkrókslína 1, tengd með jarðstreng við nýtt yfirbyggt 66 kV, 4 rofareita tengivirki á Sauðárkróki, sem reist verður í iðnaðarhverfinu í bænum. Núverandi tengivirki, sem stendur við Kvistahlíð, nærri íbúabyggð, leggst þá af. Í Varmahlíð verður einnig reist nýtt yfirbyggt, 66 kV, 5 rofareita virki á lóð núverandi tengivirkis, bætt við núverandi 132 kV virki og settur upp nýr spennir. Samkvæmt samningi er stefnt á að  framkvæmdum ljúki á næsta 2021.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir