Athyglissjúk á við alheimsdrottningu

Embla og Ragndís. MYND AÐSEND.
Embla og Ragndís. MYND AÐSEND.

Mini Shnauzer eða dvergshnauzer eru mjög glæsilegir og kröftugir hundar sem er með feld sem fellir ekki hárin og gefur frá sér litla sem enga hundalykt. Feldurinn er strýr og þarf reglulega að reyta hann og hefur hann þann eiginleika að hrinda frá sér vatni og óhreinindum. Þeir eru bæði sjálfstæðir og forvitnir, eru með langt höfuð, skegg og augabrýr sem einkennir þessa mögnuðu tegund.

Króksararnir Ragndís Hilmarsdóttir og Ómar Helgi Svavarsson, ásamt dætrum þeirra tveim, Lilju Bergdísi og Karen, eiga
einn svona dvergshnauzer sem heitir því fallega nafni Embla Sóldís.

Hvernig eignuðust þið Emblu? Við hjónakornin höfum alltaf verið sammála því að það að alast upp með dýrum sé mikilvægt og mannbætandi. Þegar við áttum von á okkar öðru barni þá ákváðum við að fæðingarorlofið væri fullkominn tími til að ala upp hvolp á heimilið. Við náðum í Emblu þann 9. júní og Karen, yngri dóttir okkar, fæðist svo þann 16. júní. Þannig að tíminn passaði flott upp á að venja hvolpinn á nætursvefninn. Svo núna í ár verða Embla og Karen fjögurra ára. En við völdum þessa tegund því Lilja Bergdís, eldri dóttir okkar, er með ofnæmi fyrir flestum dýrahárum, en ekki fyrir feldinum á Mini Shnauzer ... svo eru þeir svo dæmalaust sætir.

Hvað er skemmtilegast við Emblu? Mini Shnauzer eru yndislegar verur í alla staði. Mitt atkvæði fór samt á þessa tegund því þeir eru ekki sígjammandi og fella ekki hár... ég fer meira úr hárum en Embla. En eftir að hún kom hingað á heimilið þá sé ég hvað þetta er skemmtileg tegund, lífsglöð, elskar að kúra, mikil barnagæla og mikil útivistarvera. Að fara á víðavang og blasta á 300+ er unun fyrir hana, það er varla að fæturnir snerti jörðina, þessi tegund var fyrst ræktuð sem rottuveiðari og þarf því að vera snör í snúningum.

Hvað er erfiðast? Hún er rosalega ákveðin (frek) ef hún heldur í smá stund að hún fái að ráða þá er voða erfitt að fá hana til að skilja að svo er ekki. Hún er mikill varðhundur (þó hún sé smá) þannig að aðskotahlutir í garðinn, eins og kettir og fuglar, eiga engan séns. Þannig að ef nágrannar heyra í henni þá er hún að reka þetta fé í burtu. Hún er athyglissjúk á við alheimsdrottningu og ef hún fær ekki að vera með í öllum fjölskylduplottum þá grætur hún hástöfum.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu Emblu? Embla er ein af fjölskyldunni, systir stelpnanna minna og þegar þær eiga afmæli þá eru haldnar veislur. Þegar Embla varð þriggja ára þá tók Lilja Bergdís ekki annað í mál en að halda garðpartý fyrir alla vini Emblu. Embla fékk þá tíu stelpur til sín í garðinn sem léku við hana í rúma tvo tíma. Besti dagur sem litla dýrið hefur átt og var SVO þreytt eftir daginn.

Feykir þakkar Ragndísi kærlega fyrir að svara spurningum um gæludýrið sitt:)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir