Græðir oft gotterí frá litla vini sínum

Breki og Steinþór sælir saman. AÐSEND MYND
Breki og Steinþór sælir saman. AÐSEND MYND

Þau Hólmfríður Lilja Böðvarsdóttir og Hafþór Smári Gylfason, sem búa á Steinsstöðum í Skagafirði ásamt syni sínum, Steinþóri Sölva, eiga mjög fallegan hund af tegundinni Vorsteh eða þýski bendirinn. Hann ber nafnið Zeldu BST Breki og er tegundin snögghærð, greind, vinaleg og nærgætin, mjög húsbóndaholl og mikið fyrir börn sem gerir hundinn einstaklega góðan félaga. Hann er mjög háður og tryggur húsbónda sínum en getur verið hlédrægur og feiminn við ókunnuga en er mjög auðveldur í þjálfun.

Þýski bendirinn hefur mikið þol og hræðist ekki kulda og getur veitt í hvaða landslagi sem er. Fullur af orku, en jafnlyndur og hlýðinn, strangviljugur en getur verið pínu þrjóskur. Feyki langaði til að kynnast honum Breka aðeins meira...

Hvernig eignuðust þið Breka? Þegar við fluttum fram á Steinsstaði 2018 var ekki lengur hjá því komist að fá sér langþráðan veiðihund en Hafþór var búinn að hafa augastað á þessari hundategund í þónokkurn tíma. Það varð úr að við fengum Breka úr frábærri ræktun, Zeldu ræktun, sem þá var í Kópavogi.

Hvað er skemmtilegast við Breka? Breki er mjög stór og fallegur hundur sem hefur endalausa orku og er einstaklega ljúfur og það er mjög gaman að fara með hann á rjúpnaveiðar.

Hvað er erfiðast? Hann er mjög ör týpa, sérstaklega í kringum aðra en heimilsfólkið og er því ansi snöggur að heilsa upp á aðra.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Breka? Þegar ég var ófrísk af Steinþóri þá leitaði Breki meira í að liggja hjá mér og lá þá gjarnan með hausinn ofan á bumbunni. Þegar Steinþór fæddist svo, þá var Breki ekkert alltof ánægður með nýjasta fjölskyldumeðliminn og vildi lengi vel ekkert með hann hafa og horfði þá bara í hina áttina, sem var algjört bíó að sjá. Hann er þó í dag einstaklega ánægður með athyglina sem hann fær frá Steinþóri sem kallar á hann öllum stundum og Breki græðir ansi oft eitthvað gotterí frá litla vini sínum.

     

Feykir þakkar Hólmfríði kærlega fyrir að svara spurningum um gæludýrið sitt:)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir