Listaverkið var 26 ár utan á húsnæði FISK Seafood!

Í sumar komu þeir félagar saman fyrir framan listaverkið og smelltu nýrri mynd af sér áður en málað var yfir herlegheitin. MYND: Kristín Eva Geirsdóttir.
Í sumar komu þeir félagar saman fyrir framan listaverkið og smelltu nýrri mynd af sér áður en málað var yfir herlegheitin. MYND: Kristín Eva Geirsdóttir.

Að undanförnu hafa verið miklar framkvæmdir við og í kringum húsakynni FISK Seafood á Sauðárkróki, Hofsósi og Skagaströnd. Það hafa ekki bara verið fjarlægð mörg hundruð tonn af alls konar rusli og drasli heldur var einnig bætt um betur og byggingar fyrirtækisins á Sauðárkróki málaðar bæði að innan og utan.

En eitt er þó víst að einhverjir eiga eftir að sakna þess að sjá ekki lengur listaverkið skemmtilega sem þeir félagar, Sverrir Bergmann Magnússon og Pálmi Jónsson, sköpuðu fyrir rúmum 26 árum síðan því núna er búið að mála yfir myndina góðu.

Feykir hafði samband við þá félaga Sverri Bergmann og Pálma og lagði fyrir þá nokkrar spurningar.

Munið þið hversu langan tíma það tók ykkur að mála myndina og hvernig stóð það til að þið voruð valdnir í verkið?

„Ég man ekki alveg hvað við vorum lengi að gera þetta. En mig minnir að þetta hafi tekið okkur um viku í heildina. Við vorum að safna okkur peningum til þess að geta farið í sumarlistaskóla og fengum greitt fyrir að gera þessa list á vegginn. Minnir að þetta hafi verið 10-15.000 kr. á haus plús 10 kg. af fiski,“ segir Sverrir Bergmann. Þá segir Pálmi aðspurður að þeir félagar hafi verið búnir að kynnast Erni Inga áður en það kom að þessu sem hafi öruggleg verið ástæðan fyrir því að þeir hafi verið valdnir í verkið en í minningunni hafi verið hér mikil bæjarhátíð, sem bar nafnið Sumarsælan, á sama tíma og verkin voru vígð. Á henni voru alls konar menningarviðburðir og var þetta einn liðurinn í því. Þá hafi einnig tveir togarar, sem voru að koma úr Barentshafinu, landað á sama tíma og slegin var upp heljarinnar bryggjuball eftir vígsluna.

Hver var sagan á bak við myndina og bjuggust þið við því að myndin fengi að vera uppi í 26 ár?

„Okkur langaði að gera mynd af firðinum og teikna þessar eyjar og hafa svo einhverjar fígurur til þess að lífga myndina við. Sumar fígúrur, eins og t.d. kallinn sem var á sjóskíðum haldandi í halann á nauti, voru byggðar á sögum sem við höfðum heyrt af eyrinni,“ segir Sverrir varðandi söguna á bak við myndina. „Það var gaman að myndin skyldi fá að vera þetta lengi uppi og veit ég að hún var vinsæl meðal bæjarbúa og ferðamanna, sem gjarnan stilltu sér upp hjá henni til myndatöku. Myndin hefur meira að segja ratað í landkynningabækur,“ segir Pálmi.

Aðspurðir um hvort þeir félagar hafi verið beðnir um að mála nýjamynd segir Sverrir að þeim hafi boðist að gera þær upp en þeir félagar verið sammála um að það væri kominn tími á það. Að auki væri mikill tími vinna við svona verkefni og í það færi mikill tími sem þeir hefðu því miður ekki þegar erindið var borið upp. „Þar sem þessir veggir standa auðir núna finnst mér tilvalið að FISK myndi bjóða einhverjum upprennandi listamönnum í Skagafirði að skreyta þá því rammarnir eru til staðar, þá væri hægt að nýta alla rammana. Mála svo nýja mynd yfir þá elstu að einhverjum tíma liðnum. Það gæti orðið lifandi listaverk sem tæki reglulega breytingum,“ segir Pálmi og Sverrir tekur undir þetta.

Hvað eru félagarnir að bralla í dag?

Sverrir er eins og flestir vita tónlistarmaður á Covid tímum sem þýðir að það er lítið um vinnu en hann situr nú sjaldan auðum höndum og er því á fullu að semja tónlist.  „Akkúrat þessa stundina er ég að taka upp lag sem ég samdi um fjörðinn fagra,“ segir Sverrir. Pálmi hinsvegar hefur brallað mikið sem við kemur sjónum og sjómennsku því hann hefur verið á togurum fyrir FISK ásamt Siglfirskum togara. Hann lauk varðskipadeildinni í stýrimannaskólanum og var hjá Gæslunni í ellefu ár. Hjá Landhelgisgæslunni var hann m.a. á Óðni gamla sem nú er hluti af Sjóminjasafninu. En einng var hann á Ægi og Tý og sótti Þór til Chile. „í dag vinnur hann á bryggjunni, ekki langt frá þeim stað sem myndin var máluð,“ segir Pálmi að lokum.

Á myndinni með þeim félögum er Örn Ingi Gíslason fjöllistamaður, en hann lést í september árið 2017. Örn Ingi var sjálf­menntaður mynd­list­armaður og fékkst við lands­lags­mál­verk, ljós­mynd­ir, abstrakt, skúlp­túra og inn­setn­ing­ar. Hann tók virk­an þátt í menn­ing­ar­lífi Ak­ur­eyr­ar þar sem hann bjó en var einnig iðin við að halda alls konar námskeið fyrir börn í grunnskólum landsins. MYND: Ásta Pálína Ragnarsdóttir.

 

Sigga sigga sigga

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir