Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, þann 16. nóvember, frá árinu 1996. Þennan dag er ýmislegt gert til þess að hefja móðurmálið til vegs og virðingar, viðurkenningar veittar, margir skólar halda sérstaka dagskrá í tilefni dagsins og þessi dagur er formlegur upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekkjum landsins.

Í ár eru 210 ár frá fæðingu skáldsins Jónasar. Í tilefni þess ætla íslenskunemar við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að efna til harla óvenjulegs viðburðar á morgun en þeir ætla að þreyta sund í Sundlaug Sauðárkróks og heiðra með því minningu skáldsins og áhuga hans á nýyrðasmíð og sundíþróttum. Í fróðlegri grein sem Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, íslenskukennari við FNV, skrifar í Feyki í dag talar hún m.a. um Jónas og tengingu hans við sundíþróttina en Jónas bjó til mörg orð yfir sund sem öllum þykja ósköp venjuleg í dag. Öllum er velkomið að koma og fylgjast með þegar nemendur FNV leggjast til sunds til heiðurs Jónasi.

Annar viðburður sem helgaður er degi íslenskrar tungu verður á Löngumýri annað kvöld. Þar verður dagskrá helguð Halldóri Kiljan Laxness. Verður hún í höndum Skagfirska kammerkórsins og Kórs eldri borgara ásamt nemendum í 7. bekk Varmahlíðarskóla. Þar er aðgangur ókeypis og boðið upp á kaffi að dagskrá lokinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir