Dagur leikskólans víða haldinn hátíðlegur
Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins og er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Vegna þessa er dagskráin víða brotin upp til hátíðarbrigða og gerir hver leikskóli það með sínum hætti.
Nemendur eldra stigs leikskólans Ársala á Sauðárkróki ætla að syngja í Skagfirðingabúð kl. 10:20 og eru allir bæjarbúar hvattir til að koma og hlusta á börnin. Börn á yngra stigi munu halda blöðruball.
Á leikskólanum Barnabæ á Blönduósi var foreldrum nemendur leikskólans boðið í morgunmat í tilefni dagsins.
Nemendur af eldra stigi leikskólans Ásgarðs á Hvammstanga fóru í gær á Heilsugæslu á Hvammstanga til að afhenda listaverk sem þau unnu og munu prýða gluggaveggi í barnahorninu, sem gefin var í tilefni af Degi leikskólans. Á heimasíðu leikskólans segir að Helga Hreiðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og þeir Ágúst Oddson og Geir Karlsson læknar hafi tekið við listaverkunum.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.