Dalalíf vinsælasta bókin á bókasöfnum landsins

Dalalíf kom síðast út í þessum fallegu fimm kiljum og á hljóðbók. Forlagið gaf út.
Dalalíf kom síðast út í þessum fallegu fimm kiljum og á hljóðbók. Forlagið gaf út.

Ótrúlegt, en alveg satt, þá er þetta ekki frétt frá fimmta áratug síðustu aldar. Það er nefnilega þannig að skáldsagan Dalalíf, eftir skagfirska rithöfundinn Guðrúnu frá Lundi, reyndist vera sú bók sem oftast var lánuð út á almenningsbókasöfnum landsins árið 2017, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum fengu vel á fimmta þúsund manns Dalalíf lánaða.

Næst í röðinni á vin­sældal­ista bóka­safn­anna var Tví­saga: Móðir, dótt­ir, feður eft­ir Ásdísi Höllu Braga­dótt­ur en hún var lánuð 3.191 sinni og í kjölfarið fylgdu glæpa­sagna­höf­und­arnir Arn­aldur Indriðason og Ragn­ar Jónas­son.

Í frétt á vef Forlagsins sem endurútgaf Dalalíf fyrir ekki alls löngu segir: „Fyrsta bindi Dalalífs kom út 1946 og var fyrsta bók Guðrúnar sem þá var tæplega sextug. Lesendur tóku fagnandi á móti lifandi persónum, skörpum sálfræðilegum athugunum, skemmtilegum samtölum og fjörlegum frásagnarhætti og nú kemur þessi rómaða saga út í fjórða sinn.“

Í Dalalífi segir af hreppstjóranum Jakobi Jónssyni sem býr á stórbýlinu Nautaflötum í Hrútadal, ókvæntur og barnlaus. Á miðjum aldri sækir hann sér óvænt brúði í næsta hérað, Lísibetu Helgadóttur. Jón, sonur þeirra, verður sjálfskipaður foringi barnanna af næstu bæjum og þegar þau vaxa úr grasi álítur leiksystirin Þóra í Hvammi sig heitbundna honum. En Lísibet hefur annað konuefni í huga handa syni sínum …

Dalalíf fæst nú bæði í fimm binda kiljuformi og á hljóðbók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir