Donni ráðinn þjálfari og yfirmaður knattspyrnumála hjá Tindastól

Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Halldór Jón Sigurðsson, Donni, handsala samstarfssamning fyrr í dag. Mynd: Magnús Helgason.
Sunna Björk Atladóttir, formaður knattspyrnudeildar Tindastóls, og Halldór Jón Sigurðsson, Donni, handsala samstarfssamning fyrr í dag. Mynd: Magnús Helgason.

Í dag skrifuðu stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls og Halldór Jón Sigurðsson, Donni, undir þriggja ára samstarfssamning um að Donni taki að sér aðalþjálfarastöðu beggja meistaraflokka félagsins auk þess að vera yfirmaður knattspyrnumála.

Stjórn knattspyrnudeildarinnar hefur miklar væntingar til samstarfsins og segir Sunna Björk Atladóttir, formaður, hana vera gríðarlega spennta fyrir komandi tímum og fagnar því að fá Donna heim, til starfa hjá félaginu.

Donni segir verkefnið afar krefjandi og segir það muni byggjast á góðu samstarfi allra sem að því kemur. Hann væntir þess að fá með sér góða einstaklinga í þjálfarateymin en hann mun leggja línurnar í gegnum allt starfið og þannig byggja upp knattspyrnuna hjá félaginu til framtíðar. Stefnan er mjög skýr með meistaraflokkana, að koma þeim báðum upp um deild.

Donni hefur getið sér góðs orðstír við þjálfun og viðurkennir hann að fleiri lið hafi verið á eftir sér en það sem réði úrslitum væri tengingin við Skagafjörð og það að hann hafi fengið góða vinnu sem kennari í Árskóla.

„Okkur fjölskyldan langaði að koma heim. Svo hef ég fylgst með gengi Tindastól og langaði að hjálpa félaginu að komast á hærri og betri stað með bæði lið. Ég held það hafi ráðið úrslitum, ekki vegna peninga, heldur af metnaði sem Skagfirðingur, sem ég tel mig vera, til þess að hjálpa og leggja mitt af mörkum til að gera betur.“

Donni segir að næstu skref séu að heyra í leikmönnum og skoða samningamál, „Við þurfum að semja við alla sem vilja vera með og vilja taka þátt í þeirri framþróun sem við ætlum að framkvæma og mun eiga sér stað hjá okkur. Svo er að semja æfingaáætlun og skilgreina hlutverk hvers og eins. Nú svo þarf að finna menn til að vera með mér. Ég geri mér grein fyrir því að það er mikil vinna að vera með tvö lið svo það er mikilvægt að finna gott fólk með mér,“ segir Donni.

Hann bendir á að mikilvægt sé að fólk geri sér grein fyrir að farið verði í uppbyggingu allra flokka. Hans aðkoma sé ekki að taka við meistaraflokksliðunum og keyra á aðkomufólki heldur verði tekið til í yngri flokkum með tilkomu Tóta, Þórólfi Sveinssyni, sem ráðinn var nýlega til félagsins. „Við viljum gera vel til lengri tíma litið og biðlum til fólks og iðkenda að stökkva á vagninn, vera með og smitast af metnaði og koma að starfinu af fullum krafti. Við viljum fá fólk með okkur og gera fótboltann geggjaðan á ný. Þetta hefur verið gott hjá stelpunum en karlaboltinn hefur verið í lægð en við viljum rífa allt upp aftur og setja boltann á þann stall sem við viljum hafa hann,“ segir Donni að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir