Draumurinn lifir!

Glaðbeittar Stólastúlkur að leik loknum. Frá vinstri: Murielle, Lauren, Jackie, María Dögg, Bryndís og Vigdís Edda. Fyrir framan er Sóldís, einn helsti stuðningsmaður liðsins. MYND: INGA HULD
Glaðbeittar Stólastúlkur að leik loknum. Frá vinstri: Murielle, Lauren, Jackie, María Dögg, Bryndís og Vigdís Edda. Fyrir framan er Sóldís, einn helsti stuðningsmaður liðsins. MYND: INGA HULD

Já! „Dömur mínar og herrar. Draumurinn lifir!“ segir Jónsi, annar þjálfara kvennaliðs Tindastóls, á Facebook í kvöld. Draumurinn um að komast upp í Pepsi Max, úrvalsdeildina í kvennaboltanum. Þegar ein umferð er eftir er lið Tindastóls aðeins tveimur stigum á eftir liði FH sem situr í öðru sæti Inkasso-deildarinnar og ef Hafnfirðingarnir misstíga sig í lokaumferðinni þá gætu Stólastúlkur vaknað upp við þann ótrúlega veruleika að leika í efstu deild næsta sumar. Stelpurnar spiluðu við ÍR í kvöld í Breiðholtinu og unnu öruggan 0-4 sigur.

Lið ÍR var löngu fallið niður í 2. deild og er langneðst í Inkasso en Breiðhyltingarnir hafa þó verið að spila betur upp á síðkastið og hafa verið að gera öðrum liðum erfitt fyrir. Það tók lið Tindastóls, sem vann fyrri viðureign liðanna í sumar 6-1, dágóðan tíma að ná forystunni. Að sjálfsögðu var það Murielle Tiernan sem gerði fyrsta markið eftir 40 mínútur og aðeins fjórum mínútum síðar bætti Vigdís Edda við öðru marki Tindastóls og staðan 0-2 í hálfleik.

Murr gerði þriðja mark Tindastóls á 51. mínútu og því ekki líklegt að heimastúlkur næðu að gera liði Tindastóls skráveifu. Það fór enda svo að María Dögg gerði lokamark leiksins í uppbótartíma og lokatölur því 0-4.

Ævintýri líkast

Sumarið hjá Stólastúlkum er búið að vera ævintýri líkast. Liðinu var spáð sjöunda sæti í deildinni en hefur lengstum verið í þriðja sætinu og svo er enn þegar ein umferð er eftir. Tindastóll er með 34 stig eftir 17 leiki; hafa unnið ellefu, gert eitt jafntefli og tapað fimm leikjum. Í leikjum liðsins hafa verið skoruð 77 mörk! Það gerir ríflega 4,5 mörk á leik. 

Lið Tindastóls hefur nú unnið fimm leiki í röð og það þrátt fyrir að liðið hafi frá því um mitt tímabil verið án nokkurra lykilpósta; Kristu Sólar, Guðrúnar Jennýar, Hugrúnar, Evu Rúnar og síðast en ekki síst Jackie Altschuld. Nú eru flestar þessara stúlkna komnar á völlinn á ný er það er frábært að þær stúlkur sem komu inn í liðið hafi staðið sína vakt með þessum glæsibrag.

Í lokaumferðinni sem fram fer næstkomandi föstudagskvöld munu Skagastúlkur mæta á KS-völlinn. Lið ÍA bjargaði sér frá falli í kvöld þegar það bar sigurorð af liði Aftureldingar. FH heimsækir einmitt Aftureldingu í Mosfellsbæinn á föstudaginn og gæti það orðið strembinn leikur fyrir Hafnfirðingana sem hefur fatast flugið að undanförnu og ekki unnið í síðustu þremur leikjum. Lið Aftureldingar hefur raunar ekki unnið í síðustu fimm leikjum þannig að bæði liðið hafa verið í óstuði. Ef bæði FH og Tindastóll misstíga sig í lokaumferðinni gætu Haukar reyndar skotist upp í annað sætið og fylgt Þrótti upp í efstu deild – en það þarf eitthvað mikið að gerast til að svo verði.

Fyrst og fremst þarf lið Tindastóls að mæta til leiks gegn ÍA á föstudagskvöldið og sigra. Stuðningsmenn þurfa að fjölmenna og styðja stelpurnar. Þá er aldrei að vita nema að villtustu draumarnir rætist. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir