Dúndurstemning á Gærunni - leikurinn endurtekinn í kvöld
Tónlistarhátíðin Gæran stendur sem hæst um þessar mundir og var dúndurstemning í húsnæði Loðskinns á Sauðárkróki í gærkvöldi þegar hver hljómsveitin á eftir annarri tryllti lýðinn. Leikurinn verður endurtekinn í kvöld og stefnir allt í hörku stuð.
Tónlistarhátíðin hófst með sólóistakvöldi á Mælifelli sl. fimmtudag en minnstu munaði að ekki yrði af kvöldinu vegna rafmagnsleysis í bænum. En eftir að rafmagnið kom aftur á var ákveðið að láta vaða og var góð stemning í húsinu. Fram komu Fúsi Ben og Vordísin, Val-kyrja, Joe Dubius, Bergmál og Hlynur Ben. Hafdís Huld og Sister sister þurftu að afboða sig vegna veikinda.
Stemningin stigmagnaðist með hverri hljómsveitinni á Gærunni í gærkvöldi og mátti sjá glaðbeitta hátíðargesti taka kröftuglega undir með hljómsveitunum, hvort sem það var með dansi eða söng. Fram komu m.a. rokkblúshljómsveitin Johnny and the rest, diskóbandið Boogie Trouble, The Bangoura Band, elektroníska poppbandið Himbrim og heimamennirnir Úlfur Úlfur sem fluttu nokkur ný lög af plötu sem þeir gefa út í haust.
Aðstandendur hátíðarinnar voru ánægðir með gærkvöldið en hefðu þó viljað sjá fleiri skagfirsk andlit á meðal tónlistargesta. Þau hvetja Skagfirðinga til að fjölmenna á tónlistarhátíðina í kvöld og njóta þeirrar fjölbreyttu og skemmtilegu tónlistaratriða sem fram koma. Þá er um að gera að mæta snemma til að missa ekki af af einni stærstu hljómsveit landsins, Kiriyama family.
Dagskrá kvöldsins:
20:00 Sunny Side Road
20:30 Kiriyama family
21:00 Skúli Mennski
21:30 Beebee and the bluebirds
22:00 Kvika
22:30 Rúnar Þóris
23:00 Nykur
23:30 Reykjavíkurdætur
00:00 Dimma
00:30 Mafama