Dýrin bræða fullorðna jafnt sem börn

Á jörðinni Stóru-Ásgeirsá í Víðidal í Húnaþingi vestra hefur verið opnaður húsdýragarður og hestaleiga en hana reka ungt par, þau Magnús Ásgeir Elíasson og Rannveig Aðalbjörg Hjartardóttir. Opnunarhátíð verður haldin nk. laugardag, þann 12. júlí frá kl. 13-17, og er þá öllum boðið að kíkja frítt í dýragarðinn þar sem verður meðal annars teymt undir krökkum á milli kl. 14 og 15.

Rætt er við Magnús og Rannveigu í Feyki sem kemur út í dag en þar segja þau fjölda fólks þegar hafði þegar lagt leið sína að bænum þrátt fyrir að dýragarðurinn hefði ekki verið formlega opnaður.

„Margir halda að við séum bara með kindur og hross en hér er náttúrulega miklu meira. Hér geta krakkar fengið að gefa heimalingum pela,  Svínka vekur alltaf lukku, svo náttúrulega endurnar, hænurnar, tófuyrðlingurinn og að fá að fara á hestbak. Það finnst öllum gaman að komast í snertingu við dýrin,“ segir Magnús.

Það var nágranni þeirra sem færði þeim yrðlinginn í júnímánuði og hefur hann verið skoðaður af héraðsdýralækni og þau fengið leyfi fyrir að halda honum. Þau eru einnig með tvo kálfa að láni í sumar og svo segja þau að fleiri skepnur eigi örugglega eftir að bætast við.

„Einn kunninginn minn var að hringja og segjast ætla að koma með dúfur handa mér, svo var einhver að stinga upp á naggrísum. Það eiga vonandi eftir að bætast við ein til tvær tegundir á ári,“ segir Magnús. Þá fékk hann einnig tvo grísi í afmælisgjöf frá öðru vinafólki, annan þeirra á fæti, áðurnefnda Svínku sem rölti með okkur um svæðið. „Besta afmælisgjöfin,“ segir Magnús og rifjar upp þá skrautlegu uppákomu þegar hann reyndi að tjónka við Svínku í fyrsta sinn. „Svínka var í hundabúri yfir nóttina og ég ætlaði að koma henni út í hús daginn eftir afmælið. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að fara með hana í fyrstu, ég ætlaði að setja á hana ól en það gekk ekkert. Svo ætlaði ég að halda á henni og þvílík djöfulsins læti,“ segir hann og hlær.

Viðtalið í heild sinni má lesa í Feyki vikunnar.

Fleiri fréttir