Dýrt að halda þrettándabrennu
Umf. Vorboðinn hefur tekið þá ákvörðun að hætta að vera með brennu á þrettándanum eins og verið hefur undanfarinn aldafjórðung. Mikill kostnaður og minna framboð á brennsluefni aðal orsökin.
Að sögn Aðalbjargar Valdimarsdóttur formanns Vorboðans mátti brenna nánast allt þegar farið var af stað með brennuna fyrir um 25 árum, og var uppistaða brennunnar gamlar heyrúllur sem hlaðið var utanum. Nú er hins vegar ekki sama hvað sett er í bálkesti og strangar reglur þar um og það efni liggur ekki á lausu á starfssvæði Vorboðans sem er fyrrum Vindælis-, og Engihlíðarhreppur í Austur Húnavatnssýslu.
-Í dag er mikill kostnaður við að fá að halda svo brennu. T.d. þarf að fá alls konar leyfi sem hafa hækkað í verði nú undanfarin ár. Við höfum sótt um styrk til sveitafélagsins til að halda hana en sú upphæð dugar rétt til að halda flugeldasýninguna, segir Aðalbjörg.
Umf. Vorboðinn er 75 manna íþróttafélag með starfsemi á sumrin og m.a. stendur fyrir íþróttaæfinagum fyrir krakka sveitarinnar. Eina fjáröflun félagsins er að vera með veitingasölu á Skrapatungurétt á haustin.