Ef ekki á að koma til hruns, stigið gætilega til jarðar - Völvuspá fyrir árið 2017

„Síðasta ár var svo óútreiknanlegt að ekki einu sinni Nostradamus heitinn hefði séð fyrir þau ósköp. En það verður að segjast að margt að því sem við spáðum í fyrra var nokkuð rétt annað greinilega misskilið eða rangtúlkað hjá okkur. Ekki látum við samt deigan síga og kíktum í spil af mörgum gerðum, litum í spákúluna okkar og erum hér komin enn einu sinn með spá fyrir komandi ár,“ segja spákonurnar hjá Spákonuarfi á Skagaströnd en þær brugðust vel við áskorun Feykis um að spá í komandi ár. Þar sem nú eru óvissutímar í pólitíkinni, og fólk forvitið um það hvað er að gerast í stjórnarmyndun og hvað mun ganga á hjá helstu  stjórnmálaleiðtogum landsins á komandi ári, er upplagt að byrja þar. Það er kannski óþarfi að taka það fram að þegar þetta er ritað hefur ekki tekist að mynda stjórn og ekkert sem bendir til að það sé að takast.

 

Pólitíkin
Hefjum því leikinn og leggjum spil fyrir Birgittu pírata, þar sem hún hefur nú nýverið gefið  stjórnarmyndunar umboðið frá sér. Birgittu finnst hún hafa verið beitt blekkingum, hún er ósátt og veit ekki hverjum má treysta. Hún þarf að fara í nokkra sjálfskoðun og gera upp hluti sem hún hefur ýtt til hliðar. Árið endar sínu betur hjá henni en það byrjar, hún verður sterkari, sáttari og í betra jafnvægi. En forsætisráðherra verður hún ekki.

Benedikt JóhannessonBenedikt Jóhannsson Viðreisnar formaður nýtur stuðnings sterkra aðila sem hefja hann nokkuð upp á stall. Hann ætlar sér stóra hluti á árinu, en það verða ekki stóru málin sem verða honum að falli heldur eru það þessir litlu sem saman safnast og verða honum einhvernvegin fjötur um fót. Seint á árinu dregur hann sig nokkuð í hlé.

 

Katrín JakobsdóttirKata – Kata, Kata..hvað er að ske..upp koma spilin Heldreginn ,Verðandi og Beyla. Ekki byrjar nú vel. Henni gengur margt í mót og sumir af hennar samferðamönnum eru henni ekki tryggir. Það skiptir mjög miklu hvernig hún tekur á málum sem upp kunna að koma. Minni stífni, meiri samningsvilja – Beyla er umhverfisvæn, friðsöm og samningsfús og er því gott spil fyrir Katrínu.

 

Sigurður IngiSigurður Ingi, hjá Framsókn þarf að hætta að þumbast svona áfram, leita ráða hjá þeim sem eru víðsýnir og ráðagóðir ekki alltaf  ætla að gera allt sjálfur. Það virðist samt sem í kringum hann séu einhverjir sem eru bara svona yfirborðsmenn, ekki gott að treysta á þá. Það verður samt meiri friður hjá honum þetta árið, en það síðasta.  Óðalið birtist okkur í rúnunum og því teljum við að hann muni verja meri tíma með fjölskyldu og vinum á komandi ári.

 

Bjarni BenediktssonBjarni Ben, dvelur í Niflheimi, samkvæmt spilunum hans og berst þar við Fjörgyn sem er viðsjárverð, hún er beggja handa járn og það er líkt og hann sé milli steins og sleggju, hún villir honum sýn. Hann er í erfiðum málum og ekki er allt sem sýnist. Hann fær gott tækifæri en það er eins og það renni honum úr greypum vegna fljótfærni. Bjarni á að hafa hægt um sig á fyrrihluta árisins því hann mun þurfa á öllum sínum kröftum að halda þegar frá líður.

 

Logi Már EinarssonLogi  í Samfylkingunni vill vera fremstur og hann er metnaðargjarn og sættir sig illa við að vera viðhengi. Hann er með stórar hugmyndir en þær eru bara ekki allar framkvæmanlegar, þannig að hann þarf að setja markið svolítið lægra og þá nýtast hæfileikar hans sýnu betur. Þetta á hann náttúrulega að vita þar sem hann er arkitekt og veit að það þarf að nýta öll rými sem best. Vertu tilbúin á hliðarlínunni þinn tími mun koma.

 

Óttar ProppéÓttarr Proppé í Bjartri framtíð  var næstur og það er erfitt að ráða í hvernig hlutir skipast hjá honum. Hann hefur kjark og hann á að nota þennan kjark og beita honum. Upp kom í hans spilum –Drellingur, sem segir að gæta þurfi sín á yfirborðsmennsku annarra og treysta á eigið hyggjuvit. E.t.v. ætti Hr. Proppé að skipta um fatastíl – góð byrjun.  Hann birtist okkur líka í valdastöðu á árinu, trúlega í  ráðherrastól. 

 

Sigmundur DavíðEkki getum við skilið við þessa yfirferð án þess að draga spil fyrir Sigmund Davíð, viljum nú ekki skilja hann útundan. Hans mál eru mjög flókin en upp kom spilið Skýrnir sem þýðir lausn á vandamálum, þannig að eitthvað birtir yfir og seinnihluta ársins verður léttara yfir hjá Sigmundi og hann nýtur lífsins. Enda kom upp spilið Hnoss sem er gyðja nægtar og glaðvær mjög.

 

 

Þegar loksins tekst að mynda ríkisstjórn þá verður það bræðingur ú mörgum flokkum- hallar til vinstri, en fæðingin gengur erfiðlega. Kemur ekki á óvart að þar komi til einhverjir aðilar   sem ekki eru á þingi nú.

Efnahagur þjóðarbúsins hefur verið á uppleið nú síðustu ár. Eitthvað verður þess valdandi að það syrtir í álinn um tíma. Það varir þó ekki lengi en verður lærdómsríkt. Kannski við förum nú að læra eitthvað af reynslunni.

Ef við lítum nú yfir árið í heild þá sjáum við mikla togstreitu milli tveggja aðila, karls og konu í byrjun ársins. Peningar eða ráðstöfun þerra eru þrætueplið. Með samvinnu næst niðurstaða og þá þarf bæði þolinmæði og langlundargeð af beggja hálfu.

Á vormánuðum birtist okkur „hógværð, turn og niðurstaða“ í spilunum. Þá er þörf á varkárni í stjórnarstörfum ef ekki á að koma til hruns, stigið gætilega til jarðar. Nokkru síðar kemur upp ágreiningsmál sem verður til þess að ungur og ákveðinn maður stígur til hliðar og út úr samstarfi. Inn kemur kona og leiðir „ fíflið“ með sér. Hún telur sig hafa getu og hæfileika á mörgum sviðum, en vantar innistæðu til framkvæmda.

 

Þjóðarhagur
Um mitt ár verður brýn þörf á aðgerðum í sambandi við útflutning eða gjaldeyrismál. Ná þarf samkomulagi um hluti sem voru löngu tímabærir.

Nú fer allt að ganga betur. Heimilin í landinu njóta velgengni og hagstæðar breytingar verða á mörgum sviðum.  En Adam verður ekki lengi í Paradís því Eva kemur og setur allt í uppnám. Það er kona í valdastöðu sem fer þversum þegar aðrir ætla langsum.  Eftir þessi umbrot sýnist okkur að gætu orðið stjórnarskipti án kosninga. Í brúna kemur samhent fólk, karl og kona, með því er mikill styrkur.

Með mikilli vinnu næst árangur og kjör hinna lakara settu verða að einhverju bætti undir lok ársins, sem kostar vissulega aukin fjárútlát sem sumir hræðast. Þetta er samt sem áður réttlætismál sem hefur setið á hakanum. Árið einkennist af átökum á pólitíska sviðinu og ýmislegt mun koma í ljós sem hefur verið hulið. 

Líklegt að kona verði forsætisráðherra, en hún endist ekki út árið og kveður með hvelli.

 

Veðurfarið 

Veðurfar er okkur alltaf hugleikið og að sjálfsögu kemur hér veðurspá fyrir árið 2017.

Uppúr áramótum gerir smá hlé á þessari veðurblíðu sem verið hefur hjá okkur undanfarið. Kemur þá snjór og verður ansi vindasamt um tíma, en síðan fáum við aftur hæglætisveður.  Okkur sýnist að það gæti orðið  nokkuð hressilegt páskahret þetta árið. Vorið heilsar hlýtt og gott. Sumarið byrjar með smá kuldakasti en að öðru leiti verður júní góður. Sumarið í heild milt og gott, rigningarkafli í byrjun hundadaga, annars bara yndisveður. Haustar hægt og tíðin góð og allir eru í sumarskapi og tína ber fram á jólaföstu. Semsagt gósentíð í veðrinu,allavega á Norðurlandi vestra.

 

Sýnum hvort öðru kærleik í verki og orðum og gleymum ekki okkar minnstu bræðrum. Samkennd og hjálpsemi gerir okkur ríkari og líf okkar innihaldsmeira.

 Munum að dæma ekki náungann fyrr en við höfum verið í hans sporum.

Gleðilegt nýtt ár og fyllum það af kærleika og ást.  - Góðar stundir.

 Áður birst í 48. tbl. Feykis 2016.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir