„Ef markmiðið er fiskvernd verður að loka á öll veiðarfæri"
Ómar Karlsson, útgerðarmaður á dragnótabátnum Hörpu HU 4 á Hvammstanga, segir í viðtali í nýjasta tölublaði Fishing News International að sér reynist erftitt að skilja þær ástæður sem liggja að baki þeim takmörkunum sem settar hafi verið á dragnótaveiðar. „Ef markmiðið er fiskvernd verður að loka veiðisvæðunum fyrir öllum tegundum veiðarfæra," segir Ómar.
Greint er frá þessu á vef LÍÚ sem segir að takmarkanir á dragnótaveiðum í sjö fjörðum, sem að taka gildi þann 1. janúar nk., hafa veruleg áhrif á útgerð Hörpu. Ómar hefur undanfarin tvö ár sótt um helming afla síns í Miðfirði, sem er einn þeirra sjö fjarða sem takmarkanirnar ná til. Hann segir í samtali við blaðið að umtalsverð breyting hafi orðið á fiskgengd á þessum slóðum á undanförnum áratugum. Ómar segr að samhliða því að fiskurinn hafi fært sig í verulegum mæli inn á grunnslóð hafi innfjarðarrækjustofninn látið undan síga.
„Á árunum frá 1970 og fram til 1998 voru hér 25 rækjubátar að veiðum með trolli og margir veiddu einnig skel með þungum plógum. Þá sagði enginn neitt. Nú er hér einn dragnótabátur og verið að loka á hann af því einhver hefur ákveðið að það þurfi að vernda fiskinn," segir Ómar og bendir á að þrátt fyrir dragnótabannið veiðislóðin sé enn opin fyrir rækju- og skelveiðibátum. Hann segir að það yrði því fróðlegt að sjá hvernig brugðist yrði við ef rækjan gengi aftur inn á grunnslóðina.
„Það er verið að loka þessum miðum án nokkurs rökstuðnings og án þess að nokkur vísindaleg gögn liggi þar að baki," segir Ómar m.a. í viðtalinu.
/LÍÚ