Fyrsta Landsmótið í hestafimleikum á Íslandi haldið á Hvammstanga
Dagana 15.-18. júlí fór fram fyrsta landsmót í hestafimleikum á Íslandi og var það haldið í Þytsheimum á Hvammstanga. Sex hópar, frá Hvammstanga, Borgarfirði, Snæfellsnesi og Suðurlandi tóku þátt og sýndu alskonar kúnstir. Þó sumir hóparnir væru frekar nýlega stofnaðir og æfingastigið því mjög mismunandi stóðu öll börnin sig einstaklega vel og fengu verðskuldaða viðurkenningu.
Skipuleggjandi keppninnar og æfingabúðanna sem sem voru haldnar fyrir mótið var Kathrin Schmitt sem hefur í mörg ár þjálfað nokkra hópa af krökkum í hestafimleikum og staðið að uppbyggingu íþróttarinnar á Hvammstanga. Í æfingabúðunum fengu börnin tækifæri til að æfa í nokkra daga með Erwin Schuette, þekktum þjálfara í hestafimleikum frá Þýskalandi. Hann tók einnig að sér hlutverk dómarans í keppninni ásamt Irinu Kamp sem aðstoðaði Kathrinu við uppbyggingu hestafimleikahópa á Hvammstanga.
Skemmtileg dagsskrá var í boði auk æfinganna sem börnin stunduðu af miklum áhuga og kappi og nutu allir góðrar stundar. Mikil samvera var hjá krökkunum milli æfinga og margt gert til gamans. Stefnt verður að svipuðum viðburði aftur á næsta ári.
Hestafimleikar eru frábær og skemmtilegt viðbót við hestamennskuna á Íslandi. Þeir efla styrk, janfvægi og samvinnu hjá krökkunum og auka fjölbreytileikan í æskulýðsstarfinu hjá hestamannafélögum og eru hóparnir hjá Þyt og Geysi góð dæmi um það.
Heimildir: Ulrike Taylor. /hmj