Það verður góð stund á Ábæ

Altaristaflan í Ábæjarkirkju séð utan frá. Mynd:hmj.
Altaristaflan í Ábæjarkirkju séð utan frá. Mynd:hmj.

Hin árlega Ábæjarmessa verður á Ábæ í Austurdal sunnudaginn 3. ágúst kl. 14:00. Sr. Karl V. Matthíasson þjónar fyrir altari. Sönghópurinn Vorvindar glaðir leiða söng við undirleik Friðriks Þórs Jónssonar. Fólk er hvatt til að taka með sér nesti og eiga saman góða stund eftir messu í einstöku umhverfi. Veðurspáin fyrir sunnudaginn er ágæt, hlýtt og þurrt, svo fegurð Austurdals ætti að njóta sín.

Hér fylgir með örlítill fróðleikur um Ábæjarkirkju, tekinn af vef þjóðkirkjunnar: „Það var Guðjón Samúelsson, sá mikilhæfi arkitekt sem teiknaði Ábæjarkirkju. Guðjón Samúelsson var fæddur 1887 og lést árið 1950. Hann varð húsameistari ríksins árið 1920 , almennt er talið að Ábæjarkirkja sé fyrsta kirkjan , sem hann teiknaði. Pétur Ármannssonar ritar í bók sinni, sem ber heitið Guðjón Samúelsson, húsameistari , sem út kom árið 2021, um kirkjuna og þar segir m.a:
,,Ábæjarkirkja er einstök í byggingarsögunni, sem tilraun til að útfæra byggingarlag íslenskrar torfkirkju í steinsteypu. Varðveittir eru tveir uppdrættir af misstórum kirkjum á Ábæ, dagsettir í apríl 1920. Veggir eru í báðum tilvikum úr steinsteypu og torfhleðsla utan á langveggjum og torf á þaki. Kirkjan, sem talin er minnsta guðshús landsins úr steinsteypu, var reist eftir minni teikningunni. Hún er eigi að síður aðeins stærri en rauðaviðarkirkjan, rúmar um 30 manns í sæti.“ Hér lýkur tilvitnun í Guðjón Samúelsson.

Heimildir: kirkjan.is /hmj

Fleiri fréttir