Eftir storminn

Það er snjóþungt í sundlauginni á Hofsósi í dag. Myndir: Margrét Árnadóttir
Það er snjóþungt í sundlauginni á Hofsósi í dag. Myndir: Margrét Árnadóttir

Lífið er nú smátt og smátt að færast í eðlilegt horf eftir óveðurshvellinn sem gekk yfir landið í gær og fyrradag. Rafmagn er nú komið á víðast hvar en þó er enn rafmagnslaust á Vatnsnesi, innst í Hrútafirði, á austanverðum Skaga og á einhverjum stöðum í Langadal og Svínadal samkvæmt upplýsingum á vef Rarik.

Þá vinnur Vegagerðin nú hörðum höndum að því að opna helstu leiðir og óvíst hve langan tíma tekur að koma vegasambandi í eðlilegt ástand. Þjóðvegur eitt um Norðurland vestra er nú orðinn fær, þó er enn þæfingur í Langadal og þungfært á Vatnsskarði. Þæfingur er á Þverárfjalli og víða í Húnavatnssýslum. Vegurinn utan Hofsóss er lokaður og margar leiðir í Skagafirði og Húnavatnssýslum eru merktar án vetrarþjónustu á vef Vegagerðarinnar og er því væntanlega óvisst með ástand þar. Enn er í gildi óvissustig vegna snjóflóða á Mið-Norðurlandi.

Veðurstofan spáir áframhaldandi norðlægri átt fram yfir helgi, sums staðar verði allhvasst eða hvasst. Búast má við éljagangi, einkum á norðanverðu landinu og á köflum austan til, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Spáð er talsverðu frosti á landinu um helgina en draga mun úr því í næstu viku.

Á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að skólastarf á Sauðárkróki sé að komast í eðlilegt horf og voru bæði leik- og grunnskóli með kennslu í dag. Stefnt er að skólahald fari fram með eðlilegum hætti á morgun, föstudag.

Í Varmahlíð er mikið fannfergi og var skólahaldi í leik- og grunnskóla aflýst í dag. Stefnt er á að skólahald hefjist að nýju á morgun, föstudag, en foreldrar og forráðamenn barna eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum þess efnis.

Á Hofsósi og Hólum er víða þungfært. Starfsemi leikskóla hófst í dag og stefnt á eðlilega opnun á morgun föstudag. Öllu skólastarfi í Grunnskólanum austan vatna var aflýst í dag vegna ófærðar og er verið að skoða með skólastarf á morgun, föstudag. Eru foreldrar og forráðamenn barna beðnir um að fylgjast með tilkynningum þess efnis. Íbúar eru hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum.

Mikið fannfergi er víða á svæðinu eins og meðfylgjandi myndir sem Margrét Árnadóttir tók á Hofsósi í dag bera með sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir