Ég fæ gjarnan innblástur af litum úr náttúrunni

Margrét Aðalsteinsdóttir býr á Sauðárkróki og hef verið þar í bráðum 30 ár en er fædd og uppalin á Akureyri. „Maðurinn minn, Örn Ragnarsson er Króksari og 1993 fluttum við í Skagafjörðinn. Við eigum fjögur uppkomin börn og tvö barnabörn. Ég er hjúkrunarfræðingur og starfa í Árskóla og einnig á heilsugæslunni hér“ segir Margrét.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Handavinna og alls kyns föndur hefur mér alltaf þótt mjög skemmtileg iðja. Að búa eitthvað til frá grunni og leika mér með liti veitir mér gleði og útrás. Ég held að það að prjóna hafi ég lært fyrst í Barnaskóla Akureyrar. Móðir mín prjónaði svolítið en hún er frá Skotlandi og prjónaði með „ensku“ aðferðinni sem mér fannst mjög furðuleg og seinleg og tileinkaði mér ekki þá aðferð. Ég held að alveg síðan ég var í menntaskóla hafi ég alltaf verið með einhver verkefni í gangi á prjónunum. Ég prjóna fyrir framan sjónvarpið, oft þegar við erum á keyrslu og nú í seinni tíð hlusta ég oft á sögur um leið og ég prjóna eða sauma út. Já ég hef líka gripið í útsaum og gerði mikið af bútasaum á tímabili. Þegar börnin voru lítil, saumaði ég oft föt á þau eins og tíðkaðist en nú snerti ég varla saumavélina nema til að gera við eða dett í bútasaum.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég hef aðeins prófað að hekla, t.d. milliverk í rúmföt, en heklið hefur aldrei heillað eins mikið. Mest prjóna ég á fólkið mitt og síðan barnabörnin komu þá hafa nokkrar flíkurnar orðið til. Ég fer oft eftir uppskriftum en breyti ég þeim gjarnan eitthvað en hanna líka stundum mínar eigin.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Þessa dagana er ég að prjóna munstraða peysu sem þarf svo að klippa upp en bráðum er ég að fara á námskeið í að læra að klippa upp peysur með aðferð sem heitir „steeking“.

Hvar færðu hugmyndir að verkum? Ég fæ gjarnan innblástur af litum úr náttúrunni og fylgist með öðru prjónafólki úti í heimi í gegnum Instagram og fæ þannig fullt af hugmyndum.

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Eitt af þeim verkefnum sem ég er ánægðust með er púði sem ég gaf í brúðargjöf fyrir nokkrum árum. Ég kalla hann Lambagras en hann saumaði ég út í ull sem ég þæfði og setti á ullarefni (sjá mynd). Væri alveg til í að gera meira af slíku.

Eitthvað sem þú vilt bæta við? Ég á erfitt með að sjá fyrir mér lífið án prjóna eða handavinnu. Ef maður hefur það áhugamál leiðist manni sjaldan og hvað er betra í einangrun eða sóttkví en að hafa eitthvað að gera í höndunum.

Áður birst í tbl. 7 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir