Ég hlýði Atla

Ég hlýði Atla, stendur á hinu nýja skilti gámasvæðisins í Hjaltadalnum. Mynd af FB.
Ég hlýði Atla, stendur á hinu nýja skilti gámasvæðisins í Hjaltadalnum. Mynd af FB.

Það kannast allir við slagorðið „Ég hlýði Víði“ en svo getur farið að nýtt, en ekki eins lipurt, slagorð festi sig í sessi í Skagafirði, alla vega í gamla Hóla- og Viðvíkurhreppi, eftir að einhver gárunginn festi það á leiðbeiningaskilti Flokku við gámasvæði sveitarinnar. Ég hlýði Atla.

Ástæðu þessa gjörnings má rekja til þess að Atla Má Traustasyni, bónda á Syðri-Hofdölum, blöskraði umgengnin á gámasvæðinu í Hólahrepp hinum forna og vandaði um fyrir sveitungum sínum á Fésbókarsíðu sinni á dögunum. Þar birtir hann myndir af vettvangi og skrifar: „Hver er svona visinn í Hjaltadalnum að drulla þessu ekki upp í gáminn. Hringdu næst svo ég geti aðstoðað þig.“

Samkvæmt hinu nýja slagorði má vænta þess að allt rusl rati í gámana héðan af. Atli er alla vega ánægður með framtakið og þakkar fyrir sig með því að birta meðfylgjandi mynd og skrifar „Góðir“ og nokkrir hláturkallar fá að fljóta með.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir