Ég hlýði Atla
Það kannast allir við slagorðið „Ég hlýði Víði“ en svo getur farið að nýtt, en ekki eins lipurt, slagorð festi sig í sessi í Skagafirði, alla vega í gamla Hóla- og Viðvíkurhreppi, eftir að einhver gárunginn festi það á leiðbeiningaskilti Flokku við gámasvæði sveitarinnar. Ég hlýði Atla.
Ástæðu þessa gjörnings má rekja til þess að Atla Má Traustasyni, bónda á Syðri-Hofdölum, blöskraði umgengnin á gámasvæðinu í Hólahrepp hinum forna og vandaði um fyrir sveitungum sínum á Fésbókarsíðu sinni á dögunum. Þar birtir hann myndir af vettvangi og skrifar: „Hver er svona visinn í Hjaltadalnum að drulla þessu ekki upp í gáminn. Hringdu næst svo ég geti aðstoðað þig.“
Samkvæmt hinu nýja slagorði má vænta þess að allt rusl rati í gámana héðan af. Atli er alla vega ánægður með framtakið og þakkar fyrir sig með því að birta meðfylgjandi mynd og skrifar „Góðir“ og nokkrir hláturkallar fá að fljóta með.