„Eigum við að tala um lífsgleðina?“
Magnús Ólafsson, fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum í Húnavatnshreppi, varð sjötugur á dögunum. Hann fagnaði því með nokkuð óvenjulegum hætti þegar hann bauð til tónleika í Þingeyrakirkju. Magnús hefur komið víða við, en auk þess að reka myndarlegt bú hefur hann selt fasteignir, stundað flug, flutt út hesta og sett saman vísur, svo fátt eitt sé nefnt. Hann er í opnuviðtali Feykis í dag.
„Það hefur æxlast svo á Sveinsstöðum að síðan 1844 hefur alltaf sonur tekið við búinu af föður. Ólafur sonur okkar, sem býr þar núna, er sá sjötti í þeirri röð,“ útskýrir Magnús. Hann getur þess jafnframt að þau Björg hafi ákveðið að víkja frá búskapnum áður en það yrði um seinan.
Blaðamaður Feykis tók hús á Magnúsi, sem nú býr á Blönduósi, en var ásamt eiginkonu sinni, Björgu Þorgilsdóttur, um það bil að flytja sig á milli húsa þar í bæ þegar viðtalið var tekið.
