Einhliða áróður á versta tíma

Ríkissjónvarpið sýndi heimildarmyndina Fjallkonan hrópar á vægð eftir Herdísi Þorvaldsdóttur leikkonu sem fjallar um gróðureyðingu og ofbeit en myndin hefur vakið mikil viðbrögð og verið tíðrædd á samskiptavefnum Facebook frá því í gærkvöldi. Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarmaður í Skagafirði segir á Facebook-síðu sinni inntak myndarinnar ekki eiga við rök að styðjast og að tímasetning sýningarinnar hafi verið eintaklega óheppileg þar sem margir bændur séu í sárum vegna óveðursins í síðasta mánuði.  

„Sýning einhliða áróðursmyndar RÚV í kvöld, þar sem dregin var upp sú mynd af sauðkindinni að hún væri hættulegt og kostnaðarsamt meindýr, á þeim tíma sem margir bændur eru í sárum vegna óveðurs, kallast að sparka í liggjandi,“ sagði Sigurjón í gærkvöldi.

Hann benti á að megin inntak myndarinnar eigi ekki við rök að styðjast, þar sem gróður er í sókn en ekki í vörn og vísar í frétt sem birt var á Mbl.is 2. apríl sl. Í fréttinni kemur fram að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur unnið að greiningu á gögnum fyrir Ísland fyrir tímabilið 1982–2010 og sýna fyrstu niðurstöður að gróður hefur verið í sókn á Íslandi.

Þar kemur fram að greining á gögnum frá gervitunglum NOAA-stofnunarinnar í Bandaríkjunum sýnir að gróður hefur aukist hér á landi á undanförnum árum. Tunglin greina m.a. gróðurstuðul, sem er mælikvarði á blaðgrænu og grósku á yfirborði jarðar. Umrædd gögn frá tunglunum ná aftur til ársins 1982 og hafa þau verið notuð til að rannsaka langtímabreytingar á gróðri víða um lönd.

Í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar segir að líklegt sé að aukningu gróðurs á landinu megi rekja til minnkandi búfjárbeitar, hlýnandi veðurfars og aukinnar landgræðslu og skógræktar.

Í lokin sagði Sigurjón að auðvitað megi margt betur fara varðandi styrkjakerfið og ýmislegt er varðar beitarstýringu en sú mynd sem dreginn var upp í RÚV var stórlega ýkt.

Fleiri fréttir