Einstök heimsfrumsýning
Nemendur 8. - 10. bekkjar í Varmahlíðarskóla heimsfrumsýna verkið Ógleymanlega martröðin, föstudaginn 16. janúar í Miðgarði klukkan 20:00. Það sem gerir þetta að stórmerkilegum viðburði er að handritið er samið af nemendum 10. bekkjar í skólanum og er aðeins þessi eina sýning í boði og því um bókstaflega einstök heimsfrumsýningu að ræða. Leikstjórar eru Íris Olga Lúðvíksdóttir og Ísak Agnarsson. Varmahlíðarskóli hlaut styrk frá Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga til að styðja nemendur 10. bekkjar í að skrifa og þróa handritið, en skriftir hófust rétt eftir árshátíð skólans fyrir ári síðan.
Feykir tók tal af Írisi, öðrum leikstjóra verksins og forvitnaðist aðeins um tilurð verksins, og hvernig væri búið að ganga. „Eftir árshátíð skólans í fyrra komu þrjár stelpur í 9. bekk til mín með þá hugmynd um að þær skrifuðu sitt eigið handrit fyrir næstu árshátíð, því þær væru bara orðnar svo leiðar á þeim leikritum sem þeim stæðu til boða! Viku síðar hófst vinnan. Þær þrjár, Ólöf Helga Ólafsdóttir, Rakel Sonja Ámundadóttir og Sigurbjörg Inga Sigfúsdóttir hafa lagt gríðarlega vinnu og tíma í hugmyndavinnu, karaktersköpun og skriftir. Ég reyndi mitt besta við að aðstoða, en til þess að smíðin yrði almennileg sótti ég um styrk til Menningarsjóðs KS til að fá til liðs við okkur fagmanneskju í handritagerð og leiklist. Ég fékk ekki aðeins styrkinn heldur líka toppmann í verkið, Helga Grím Hermannsson, leikhúslistamann með meiru. Helgi aðstoðaði handritshöfundana og þegar nær dró vori kom hann norður og allir nemendur 10. bekkjar voru innvinklaðir í handritssmíðina. Í nóvember taldist verkið svo prenthæft.
Ég má voða lítið segja frá söguþræðinum, ég get þó upplýst að verkið fjallar um vinahóp sem lendir vægast sagt í hremmingum, bæði í gríni og graf-alvöru.“
Hvernig hafa æfingar gengið ? „Aldrei þessu vant höfðu margar senur verið prófaðar strax að hausti, stundum þurfti nefnilega að sannreyna hvort þær gengju upp, hvort samtölin væru að gera sig, hvort söguþráðurinn meikaði sens! Þegar svo æfingar hófust eftir jólafríið, þurfti ekki að byrja á núlli! Hver og einn nemandi í 8. - 10. bekk gegnir hlutverki, hvort sem það er á sviði sem leikari, sviðsmaður eða tæknimaður.“
Síðan að lokum verður þú aðeins að segja mér frá leikstjórateyminu ? „Nú leikur stórlán við okkur því gamli Varmhlíðingurinn, Ísak Agnarsson leikstýrir með mér þetta sinnið. Og þvílík himnasending! Þrátt fyrir kornungan aldur býr hann yfir því helst sem þarf í góðan leikhúsmann: reynslu, auðmýkt, miklum húmor, stjórnunarhæfileikum og hlýju, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Íris að lokum um leið og blaðamaður þakkar Íris fyrir stutt spjall milli æfingasena hvetjum við að sjálfsögðu alla til að mæta og sjá þessa einstöku heimsfrumsýningu.
