Eitt sæti laust í Meistaradeild KS

Sigurlið Þúfna í Meistaradeild KS 2020. Mynd af FB síðu deildarinnar.
Sigurlið Þúfna í Meistaradeild KS 2020. Mynd af FB síðu deildarinnar.

Undirbúningur fyrir Meistaradeild KS í hestaíþróttum er kominn af stað og hafa verið gefnir út keppnisdagar fyrir næsta tímabil. Þann 3. mars hefst veislan í reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki með keppni í fjórgangi. Efstu lið síðasta tímabils unnu sér inn þátttökurétt sl. vor og þurfa þau að staðfesta fyrir 31.október hvort þau ætli sér að halda áfram. Eitt sæti er hins vegar laust og þurfa áhugasamir að skila inn umsóknum fyrir 15. nóvember á netfangið unnursigurpals@gmail.com.

Lið Þúfna stóð uppi sem sigurvegari í liðakeppni Meistaradeildar KS 2020 og vann sér þar með inn sæti á næsta keppnistímabili auk sex næstu liða á stigatöflunni. Litlu mátti muna á neðstu liðunum en það var lið Kerckhaert sem þurfti að bíta í það súra epli að detta út með hálfu stigi minna en Íbishóll sem bjargaði sér fyrir horn. Úrslitin urðu þessi:

1. Þúfur 333,5 stig
2. Hrímnir 308 stig
3. Syðra Skörðugil/Weierholz 246,5 stig
4. Regulator Complete/ Skáney 240 stig
5. Equinics 195,5 stig
6. Íbishóll 182 stig
7. Leiknisliðið 179,5 stig
8. Kerckhaert 179 stig

Á Facebooksíðu deildarinnar kemur fram að Mette Moe Mannseth hafi borið sigur úr bítum í einstaklingskeppninni sl. vetur, eftir að hafa náð fyrsta sæti í fjórgangi og endað í öðru sæti í gæðingafimi á hryssunni Skálmöld frá Þúfum. Annað sætið í tölti varð hennar og hryssunnar List frá Þúfum og í slaktaumatölti náði hún þriðja sæti á Hryðju frá Þúfum. Einnig reið hún B-úrslit í fimmgangi á Kalsa frá Þúfum og lagði Vívalda frá Torfunesi í gegn um höllina og hlaut þar níunda sæti.

Úrslit urðu eftirfarandi:

1. Mette Mannseth 121,5 stig
2. Þórarinn Eymundsson 101,5 stig
3. Randi Holaker 97 stig
4. Bjarni Jónasson 96 stig
5. Barbara Wenzl 81 stig

Það er engan bilbug að finna á hestamönnum þó Covid herji á nú um stundir og má búast við hörkukeppni í vetur. Keppni hefst þann 3. mars á fjórgangi í reiðhöllinni Svaðastaðir á Sauðárkróki, þar sem allar keppnir fara fram utan gæðingafimar sem fram fer í Léttishöllinni á Akureyri 19. mars. Slaktaumatöltið fer fram 9. apríl, fimmgangur 21. apríl og loks verður svo keppt í tölti og skeiði þann 7. maí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir