Ekki mikið um folaldadauða af völdum hestapestarinnar

Folöld hafa reynst afar móttækileg fyrir sýkingu af völdum Streptococcus zooepidemicus, smitandi hósta, nú í sumar og haust og enn ber nokkuð á veikindum hjá þessum hópi. Í mörgum tilfellum virðast þau hafa góða vörn gegn sjúkdómnum fyrstu tvo mánuðina eftir fæðingu, sem líklega má rekja til mótefna sem þau fá með broddmjólkinni. Að þeim tíma liðnum standa þau berskjölduð gegn sýkingunni.

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að alla jafna komist folöldin yfir sýkinguna af eigin rammleik en það getur tekið drjúgan tíma þar til þau verða alveg einkennalaus. Allmörgum hefur  verið hjálpað með penicillingjöf og á hún alltaf rétt á sér ef folöld eru komin með hita eða önnur alvarleg einkenni.  

Í rannsóknaskyni hefur verið óskað eftir folöldum, sem grunur leikur á að hafi drepist úr veikinni, til krufninga á Tilraunastöðinni á Keldum.  Alls hafa 17 folöld verið rannsökuð með þessum hætti. Í fimm tilfellum  má rekja dauða folaldanna til streptókokkasýkingar í lungum og þrjú önnur dauðsföll tengjast mögulega sýkingunni. Hin folöldin, níu talsins, hafa drepist af öðrum orsökum.

Óvíst er hvort folaldadauði hafi aukist en ekki liggja fyrir upplýsingar um tíðni folaldadauða hér á landi, hvorki fyrir tíma smitandi hósta né eftir að veikin kom upp. Því er erfitt að meta hvort hann sé meiri nú en áður. Þrátt fyrir að kallað hefði verið eftir folöldum til krufningar eigendum að kostnaðarlausu, bárust aðeins 17 folöld í rannsóknina. Bendir það til  að folaldadauði hafi ekki verið mikill í sumar og haust. Krufningarnar hafa engu að síður gefið dýrmætar upplýsingar um þá streptókokkasýkingu sem herjað hefur á hrossastofninn sem og aðrar orsakir folaldadauða. Niðurstaðan er sú að ekki sé mikil hætta á að folöld drepist af völdum fylgikvilla smitandi hósta.

/mast.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir