Eldur í Húnaþingi - laugardagsdagskrá
Unglistahátíðin Eldur í Húnaþingi er bæjarhátíð í Húnaþingi vestra hófst sl. miðvikudaginn og lýkur á morgun, laugardaginn 26. júlí á stórdansleik með hljómsveitinni Buff í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Hátíðin hefur verið haldin árlega frá árinu 2003 og er stútfull af skemmtilegri afþreyingu sem enginn ætti að missa af.
Laugardagurinn 26. júlí 2014 - Dagskrá:
FM Eldur – FM 106,5 Útvarpsstöðin FM Eldur verður starfræktur yfir hátíðina á tíðninni FM 106,5. Útvarpsstjóri í ár er Birkir Snær Gunnlaugsson. Þeir sem hafa áhuga á að vera með útvarpsþátt, flytja tónlist í útvarpinu eða taka þátt með einhverjum hætti, er bent á að hafa samband við Birki á utvarphvammstangi1@gmail.com eða í síma 847-9444.
10:00 Sápurennibraut, Tommabrekka á Hvammstanga - Sápurennibrautin er án efa vinsælasta afþreyingin yfir unglistahátíðina. Rennibrautin opnar klukkan 10:00 og er sem áður staðsett í Tommabrekku. Fyrir þá sem ekki þekkja til er það brekkan fyrir neðan íþróttamiðstöðina en gaman er að segja frá því að brekka þessi dregur nafn sitt af dreng sem átti heima í húsinu við hliðina á brekkunni fyrir nokkrum árum síðan.
11:00 Bubblebolti, Sparkvöllurinn við grunnskólann á Hvammstanga - Bubblebolti er eins og venjulegur fótbolti þar sem liðið sem skorar flest mörk vinnur. Eini munurinn er að hver og einn leikmaður spilar inni í stórri plastkúlu sem ver líkamann frá höfði niður að hnjám. Fótboltinn verður ennþá skemmtilegri þar sem leikmenn geta klesst á andstæðinginn og velt honum um koll. Bubbleboltinn verður opinn frá kl. 11:00 til kl. 17:00.
12:00 Fjölskyldudagurinn, Bangsatún og Mjólkurstöðvartúnið á Hvammstanga - Fjölskyldudagurinn hefst klukkan 12:00 sunnan megin við félagsheimilið á Hvammstanga. Þar verður boðið upp á pulsur og Svala fyrir alla. Andlitsmálning og hoppukastalar verða í boði fyrir börnin, Lína Langsokkur mætir á svæðið, fyrirtækjakeppni, ásamt ýmsu sem kemur í ljós síðar. Þá verður grillvagninn í boði Félags sauðfjárbænda í Vestur-Húnavatnssýslu. Úrslit í hverfakeppninni verða kunngerð á fjölskyldudeginum.
12:00 Vatnaboltar, Við félagsheimilið á Hvammstanga - Vatnaboltar verða á fjölskyldudeginum en vatnaboltar henta öllum aldurshópum frá c.a. þriggja ára aldri. Ungir sem aldnir geta skemmt sér í boltunum en þyngdartakmarkanir eru ca. 80 kg. Vatnaboltarnir verða opnir frá kl. 12:00 til kl. 17:00.
12:00 Opið "game jam", Félagsheimilið á Hvammstanga - Til stendur að hafa opið "game jam" þar sem fólk getur komið og horft á Jóhannes Gunnar Þorsteinsson (og mögulega aðra meðlimi Leikjasamsuðunnar) búa til tölvuleiki. Síðan er fólki frjálst að koma með sína eigin tölvu, hljóðfæri, blað og penna og skapa list eða forrita fyrir leikina sem er verið að gera. Áætlað er að opna leikjasmiðjan hefjist kl. 12:00.
13:00 Paintball og Lasertag, Mjólkurstöðvartúnið, við Hvammstangabraut á Hvammstanga - Hægt verður að skella sér í Paintball og Lasertag meðan á hátíðinni stendur. Vellirnir verða staðsettir á Mjólkurstöðvartúninu. Paintball og lasertag er frábær skemmtun fyrir vinahópa, skólahópa, fyrirtæki, eða gæsa-/steggjapartý. Aldurstakmark í Paintball er 18 ára en veitt er undanþága frá 15 ára aldri gegn skriflegu leyfi forráðamanns. Vellirnir verða opnir á laugardeginum frá 13:00 - 22:00.
13:00 Heiðurssýning Agnars Levy, Hús VSP við Brekkugötu 2 - Agnar Levy var einn af bestu hlaupurum Íslendinga á árunum 1960-1969. Hann keppti bæði hérlendis sem erlendis. Sýndir verða munir í einkaeigu, ljósmyndir, blaðagreinar, umfjallanir o.fl. Sýningin fer fram í húsi Sigurðar Pálmasonar á jarðhæð. Agnar sjálfur mun vera af og til á staðnum til að hitta og spjalla við fólk.
Opnunartími sýningar frá kl. 13:00-16:00. Aðstandendur sýningar eru afkomendur Agnars. Áhugaverð sýning sem allir eru hvattir til að koma og upplifa.
14:00 Fyrirtækjakeppnin, Bangsatún á Hvammstanga - Fyrirtækjakeppnin er liður af fjölskylduhátíðinni og hefur verið með ýmsu sniði undanfarin ár. Við munum öll eftir árinu þegar Boot Camp fyrirtækjakeppnin var og Bergþóra Einars hélt manna lengst á hellu yfir höfði sér. Það var fjör en keppnin í ár verður ögn auðveldari og því ekki yfir neinu að hræðast. Auk þess að keppa í getu milli fyrirtækjanna verða einnig veitt verðlaun fyrir bestu búningana.
17:00 Kormákur/Hvöt - Afríka, Hvammstangavöllur, Kirkjuhvammi - Heimaleikur liðs Kormáks/Hvatar við liðið Afríka í C-riðli 4. deildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu karla fer fram á Hvammstangavelli kl. 17:00. Allir á völlinn!
20:00 Fjölskyldudansleikur, Félagsheimilið á Hvammstanga - Fjölskyldudansleikur með hljómsveitinni Buff í boði styrktaraðila hefst klukkan 20:00. Sveitin hefur það orð á sér að það skín af þeim að meðlimir skemmta sér jafn vel á sviðinu og fólkið á dansgólfinu, það hefur sýnt sig að ef hljómsveitin skemmtir sér þá skemmta allir sér. Aðgangur er ókeypis og unglistarsjoppan opin.
23:00 Dansleikur með Buff, Félagsheimilið á Hvammstanga - Hátíðinni lýkur með stórdansleik með hljómsveitinni Buff. Sveitin hefur það orð á sér að það skín af þeim að meðlimir skemmta sér jafn vel á sviðinu og fólkið á dansgólfinu, það hefur sýnt sig að ef hljómsveitin skemmtir sér þá skemmta allir sér. Húsið opnar klukkan 23:00 og stendur dansleikurinn til 03:00. 16 ára aldurstakmark inn.